Listsköpun Helenu Óskar
Helena Ósk Jónsdóttir, nemandi á starfsbraut VMA, lýkur námi sínu í skólanum núna í maí. Í þau fjögur ár sem hún hefur verið í skólanum hefur hún m.a. unnið að listsköpun af ýmsum toga sem gafst kostur á að sjá í dag í VMA. Margir þeirra kennara sem hafa unnið með Helenu í þau fjögur ár sem hún hefur verið í skólanum, stjórnendur skólans, nemendur og fjölskylda Helenu komu saman í morgun í Þrúðvangi, sal matvælabrautar VMA, og áttu þar skemmtilega stund saman, nutu listsköpunar sem Helena Ósk hefur unnið að í skólanum og gæddu sér á veitingum sem voru í boði.
Arna G. Valsdóttir, kennari á listnáms- og hönnunarbraut, sem hefur ásamt mörgum öðrum kennurum unnið mikið með Helenu undanfarin ár, sagði frá því í kynningu á verkum Helenu að það hafi verið einstaklega gaman og gefandi að vinna með henni. Nokkur verkanna bæru þess merki að Helena elskaði hesta og nyti þess að vera með þeim og sinna þeim. Í byrjun hafi hún teiknað einfaldar hestamyndir en þær hafi með tímanum þróast og orðið margbreytilegri. Fyrirmyndir hafi hún sótt víðar, til dæmis í náttúrulífstímaritið National Geographic. Í því sambandi færði Arna fyrir hönd VMA Helenu Ósk að gjöf nokkur tölublöð tímaritsins þar sem hún getur áfram sótt sér hugmyndir til listsköpunar, eftir að námi hennar lýkur í VMA með formlegri brautskráningu síðar í þessum mánuði