Listsköpun VMA-nema í Pieces for Peace
Ísland á nú í fyrsta skipti rödd í alþjóðlega listaverkefninu Pieces for Peace, sem er undir regnhlíf CITYarts. Þessu verkefni var hleypt af stokkunum fyrir 35 árum síðan í New York af konu sem heitir Tsipi Ben-Haim. Og rödd Íslands í þessu verkefni kemur frá VMA, nánar tiltekið nemendum á listnáms- og hönnunarbraut skólans. Þeir hafa að undanförnu unnið að fjölbreyttum myndverkum fyrir þetta verkefni þar sem friðarboðskapurinn er í öndvegi. Þessar myndir, sem voru fyrst sýndar á opnu húsi í VMA í síðustu viku, eru skannaðar og verða vistaðar á vefsíðu CITYarts. Þar með verður Ísland orðið hluti af þessu verkefni.
Pieces for Peace er ætlað að auka skilning og tengsl ungs fólks í mismunandi menningarheimum og löndum með því að skapa list út frá þeirri spurningu hver sýn fólks er á frið í heiminum.
Sem fyrr segir er hægt að skoða á vefnum allan þann mikla fjölda verka sem hafa verið unnin á undanförnum árum og áratugum en einnig hafa verið haldnar farandsýningar þar sem ákveðinn fjöldi valinna verka er sýndur. Þrjátíu slíkar sýningar eru að baki í átján löndum um allan heim. Í það heila hafa ríflega tólf þúsund verk verið sýnd frá um 1500 skólum í 122 löndum í 6 heimsálfum. Og nú bætist Ísland við.
Nemendur eru ekki bundnir af málaralist. Verkin geta spannað ljóðlist, textíl, málverk, teikningar, klippimyndir og allt þar á milli.
Hér gefur að líta nokkrar af þeim myndum sem nemendur á listnáms- og hönnunarbraut unnu fyrir Pieces for Peace.