Lít á það sem heiður að taka þátt í Íslandsmótinu
„Það hefur verið mjög dýrmætt og lærdómsríkt að fara í gegnum undirbúninginn fyrir þessa keppni, ekki síst að finna út hvernig best er að gera hlutina. Ég kem til með að taka alveg hellings lærdóm úr þessu,“ segir Óliver Pálmi Ingvarsson, annar tveggja nemenda í rafvirkjun í VMA sem taka þátt í Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem hefst í Laugardalshöllinni á morgun og stendur fram á laugardag. Hinn rafvirkjanemandinn úr VMA er Droplaug Dagbjartsdóttir.
Óliver Pálmi býr á Blönduósi en er fæddur og uppalinn á Selfossi. Hann segist ekki hafa átt sér draum frá blautu barnsbeini um að læra rafvirkjun en áhuginn hafi kviknað þegar hann tók þátt í að gera upp hús á Blönduósi. Og þá var ekki aftur snúið. Hann segir námið hafa verið frábært og kennararnir fyrsta flokks. Þegar tækifæri gefst til segist hann vinna í faginu hjá Tengli ehf. á Blönduósi og þar hefur hann raunar unnið tvö síðustu sumur. Að sjálfsögðu er Óliver á samningi hjá Tengli og ferilbókin er klár fyrir sveinspróf sem stefnan er tekin á fljótlega eftir brautskráningu í vor.
Droplaug er úr Fellabæ. Hún segist alltaf hafa verið ákveðin í að fara í verknám og ef til vill kunni það að hafa haft eitthvað að segja að faðir hennar er vélstjóri og rafvirki og bræður hennar múrari og bifvélavirki. Rafvirkjunin hafi strax heillað enda hafi stærðfræðin, sem hún kunni vel að meta, þar töluvert vægi. Hún segir einn af kostunum við verklegt nám eins og rafvirkjunina vera náið samstarf nemenda og kennara, ekki síst í verklega hlutanum.
Til hliðar við nám sitt í VMA starfar Droplaug tvo daga í viku hjá raffyrirtækinu Röskum rafvirkja á Akureyri og hjá því er hún á samningi. Síðastliðið sumar starfaði hún hjá Rafey á Egilsstöðum.
Eins og Óliver Pálmi útskrifast Droplaug í vor og stefnan er tekin á sveinspróf í rafvirkjun í kjölfarið. Og ekki lætur Droplaug þar við sitja því að um jólin stefnir hún að því að hafa lokið þeim áföngum sem hún þarf að bæta við sig til þess að ljúka einnig stúdentsprófi.
Í desember sl. fengu Óliver Pálmi og Droplaug að vita að þeim stæði til boða að taka þátt í Íslandsmóti iðn- og verkgreina. Í stórum dráttum er vitað hvað bíður þeirra í keppninni því undanfarinn mánuð hafa þau verið með teikningar af því sem þau þurfa síðan að útfæra í Laugardalshöllinni. Keppnin byrjar strax í fyrramálið og verður fyrsti hluti hennar átta tímar í húsarafmagni, á föstudag verða aðrir átta tímar í verksmiðjurafmagni og á laugardaginn verða síðan fjórir tímar í forritun og tenginu mótors. Þegar frammistaða keppenda verður metin verður ekki síst horft til málsetninga, festinga og tenginga. Einnig verður horft til vinnuhraða og skipulags og snyrtimennsku við að leysa fyrirliggjandi verkefni.
Droplaug segir hafa verið lærdómsríkt að fara í gegnum undirbúning fyrir mótið og keppnin sjálf verði mjög góð æfing í tímaskipulagningu fyrir sveinsprófið í rafvirkjun.
„Ég lít á það sem mikinn heiður að fá að taka þátt í Íslandsmótinu fyrir hönd VMA,“ segir Óliver.
Eins og áður hefur komið fram tekur Sigursteinn Arngrímsson, nemandi í húsasmíði í VMA, einnig þátt í Íslandsmótinu.
Og auk framangreindra þriggja taka þátt í Íslandsmótinu eftirtaldir sex nemendur úr VMA:
Sigursteinn Arngrímsson, húsasmíði
Jón Steinar Árnason, málmsuða
Steindór Óli Tobiasson, málmsuða
Hreiðar Logi Ásgeirsson, rafeindavirkjun
Jóhann Ernir Franklín, rafeindavirkjun
Sindri Skúlason, rafeindavirkjun
Nemendunum til halds og traust á Íslandsmótinu verða eftirtaldir fimm kennarar:
Kristján Óli Helgason, húsasmíði
Friðrik Óli Atlason, rafvirkjun
Ari Baldursson, rafeindavirkjun
Þórhallur Tómas Buchholz, rafeindavirkjun
Kristján Kristinsson, málmiðngreinar