Líta til lærdómsaldar
Verkefni dagsins í íslensku er ritgerð um lærdómsöld. Margrét Rún Stefánsdóttir og Elísabet Ýr Jóhannesdóttir, nemendur á fyrsta ári á textílsviði listnáms- og hönnunarbrautar, sitja við fartölvurnar á bókasafni VMA og kynna sér heimildir um lærdómsöldina – sem tímabilið frá siðaskiptum til upplýsingaraldar eða 1550 til um 1770 er oft kallað. Margrét og Elísabet segjast oft nýta eyður í stundatöflunni til þess að fara á bókasafnið og vinna verkefni.
Margrét er frá Sauðárkróki og hafði því alla möguleika á því að sækja framhaldsskóla í sinni heimabyggð. Listnáms- og hönnunarbrautin í VMA var hins vegar segullinn sem dró hana til Akureyrar. Margrét býr á Heimavist MA og VMA og kann því vel. Segist njóta þess að búa á Akureyri og finnst frábært að stunda nám í stórum skóla eins og VMA. Hún segir mikilvægt að skipuleggja tíma sinn vel því til hliðar við námið stundi hún fótbolta af kappi. Hún er liðsmaður öflugs liðs Tindastóls, sem spilaði í Pepsídeildinni sl. sumar og stóð sig ljómandi vel á fyrsta ári í hópi þeirra bestu. Margrét er markmaður og fékk tækifæri, þrátt fyrir að vera ung að árum, til þess að standa á milli stanganna síðasta sumar. Og það er til marks um getu Margrétar í markinu að hún hefur spilað þrjá landsleiki, tvo með U-16 og einn með U-17 landsliði Íslands. „Það er markmiðið að komast í A-landsliðið,“ segir Margrét og bætir við að til hliðar við skólann stundi hún æfingar í vetur með 2. flokki Þórs/KA.
Elísabet segist hafa innritast á myndlistarsvið listnáms- og hönnunarbrautar en skipt yfir á textílsvið brautarinnar á þessari önn, áhugi hennar liggi meira í textíl og fatahönnun. Síðustu þrjú árin í grunnskólanum var hún í Naustaskóla en hafði tvö árin þar á undan, frá 2016-2018, búið í Frakklandi. Það segir Elísabet að hafi verið mikil og góð reynsla. Hún var vitaskuld í frönskum skóla, lærði töluvert í frönsku og einnig gat hún nýtt enskuna til tjáskipta. „Franskir krakkar læra öðruvísi skrift en hér á Íslandi og ég lærði þessa skrift og hef tileinkað mér hana,“ segir Elísabet en hún bjó í strandbænum Boulogne-sur-Mer í norðurhluta Frakklands.
Margrét og Elísabet eru sammála um að eitt það skemmtilegasta við stóran skóla eins og VMA sé að nemendur komi úr öllum áttum og ný tengsl myndist. Þær hafi ekki þekkst áður en þær hófu nám sl. haust en skólinn hafi leitt þær saman og þær séu góðar vinkonur.