Litaflokkari og sjálfkeyrandi bíll og allt þar á milli!
Þessa dagana er mikið um að vera hjá rafeindavirkjanemum í VMA enda styttist í annarlok og því eru þeir á fullu við að vinna að lokaverkefnum sínum. Ekki aðeins eru þetta lokaverkefni á önninni heldur eru þau liður í lokaspretti þessara verðandi rafeindavirkja í náminu, þeir tólf nemendur sem nú eru í rafeindavirkjuninni útskrifast 18. desember nk.
Lokaverkefnin eru hluti sveinsprófs nemenda núna í desember. Fulltrúar sveinsprófsnefndar koma frá Reykjavík til þess að meta lokaverkefnin og spyrja nemendur út í hugmyndafræðina að baki þeim. Ýmsir aðrir hlutir koma einnig til mats í sveinsprófinu.
Rafeindavirkjun er aðeins kennd í tveimur skólum á landinu, VMA og Tækniskólanum. Nemendur eru fjórar annir í grunndeild rafiðna en síðan skilja leiðir, sumir nemendur velja að fara áfram í rafvirkjun en aðrir taka þrjár annir til viðbótar (sjö anna nám í það heila) og ljúka rafeindavirkjuninni. Þess eru dæmi að nemendur taki bæði rafvirkjun og rafeindavirkjun og standi þannig sterkir að vígi á vinnumarkaðnum. Ekki er gerð krafa um stúdentspróf til þess að fá viðurkennt starfsheitið rafeindavirki en margir nemendur, t.d. nokkrir þeirra sem nú eru að ljúka námi sínu í rafeindavirkjun í VMA, taka líka stúdentspróf. Stefni nemendur á háskólanám þurfa þeir að hafa lokið stúdentsprófi.
Á þessari síðustu önn í rafeindavirkjun eru nemendur í sjö áföngum; fagteikningu veikstraums, fjarskiptatækni, rafeindavélfræði, nettækni og miðlun, rafeindabúnaði og mælingum, smíði og hönnun rafeindarása og stýritækni og forritun.
Þessir áfangar gefa eilitla hugmynd um verksvið rafeindavirkja. Ari Baldursson, kennari í rafeindavirkjun, segir að útskrifaðir nemendur fáist við fjölmargt eftir að námi lýkur. Sumir fari beint út á vinnumarkaðinn en aðrir haldi áfram námi og þar séu endalausir möguleikar því grunnurinn sem nemendur fái í þessu námi nýtist afar vel. Ari nefnir að starfssvið rafeindavirkja taki m.a. til hugbúnaðargerðar, hljóð- og myndvinnslu, fjarskipta, netkerfa og hvers kyns rafeindabúnaðar.
Það verður áhugavert að fylgjast með lokaverkefnum rafeindavirkjanemanna taka á sig endanlega mynd á næstu dögum og vikum. Ari segir að strax í byrjun þessarar annar hafi nemendur lagt línur um það sem þeir vildu gera enda ekki seinna vænna því fjölmarga íhluti hefur þurft að panta í þessi fjölbreyttu verkefni, m.a. frá Kína. Á covidtímum hefur þurft rúman tíma til þess að fá vörur um langan veg úr fjarlægum heimshlutum. En það hefur líka komið sér afskaplega vel fyrir nemendur að geta haft aðgang að Fab Lab Akureyri, sem er til húsa í VMA, til þess að hanna og prenta þar út ýmsa hluti.
Fjölbreytnin í lokaverkefnunum er mikil; m.a. dróni, róbótar, veðurstöð, sjálfafgreiðslukassi, litaflokkari og sjálfkeyrandi bíll.