Fara í efni

Dagur íslenskrar tungu - ljóð eftir Önnu Kristjönu Helgadóttur

Anna Kristjana Helgadóttir.
Anna Kristjana Helgadóttir.

Í dag er haldinn hátíðlegur Dagur íslenskrar tungu - 16. nóvember 2021. Þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson fæddist þann 16. nóvember 1807 að Hrauni í Öxnadal - fyrir 214 árum. Það er við hæfi að á fæðingardegi Jónasar beinum við sjónum okkar að móðurmálinu, stöðu þess og þróun. 

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands árið 1995 að ár hvert yrði 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, dagur íslenskrar tungu. Hann var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996.

Árlega eru veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar til fólks sem hefur haldið merki íslenskunnar hátt á lofti á einn eða annan hátt og einnig eru veittar sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu. Svo verður einnig gert í dag. Á síðasta ári hlaut Gerður Kristný rithöfundur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstaka viðurkenningu hlaut Félag ljóðaunnenda á Austurlandi.

Í tilefni dagsins fengum við góðfúslegt leyfi til þess að birta tvö ljóð eftir einn af nemendum VMA, Önnu Kristjönu Helgadóttur. Hún hefur lengi fengist við að yrkja og árið 2018 sigraði hún ritlistarkeppnina Ungskáld Akureyrar, ljóð hennar voru í fyrsta og öðru sæti keppninnar.

Hér eru tvö ljóð eftir Önnu Kristjönu. Sálarljóð hefur ekki birst áður en Rómeó og Júlía hefur birst í Tímariti Máls og menningar.

Sálarljóð
Þú ert með ljóð á bakvið eyrað,
örsögu á milli fingranna.
Ég reyni að lesa fyrir þig
orðin sem hafa fylgt þér alla ævi,
því þú getur ekki lesið.
Sérðu ekki skáldskapinn á herðum þínum?
Leyfðu mér að ríma við þig,
leyfðu mér að skrifa þig niður.
Sérðu ekki ódauðleikann í orðunum sem dansa um í augunum þínum?
Sérðu ekki að ljóðin
lifa að eilífu?

Rómeó og Júlía
Ég hitti Djöfulinn á Glerártorgi.
Hann hallaði sér upp að vegg og fylgdist með umferðinni.
Það tók enginn eftir honum en allir tóku sveig framhjá og börn grétu í návist hans.
Jakkafötin hans virtust nýstraujuð, sólgleraugun mött og hárið sleikt aftur.
Ég hitti Djöfulinn á Glerártorgi
       og hann brosti sínu breiðasta.

Ég hitti Guð á horninu hjá Bónus og Dominos.
Hún sat á gangstéttinni með pitsusneið í annarri hendinni og sígarettu í hinni.
Ég fékk mér sæti hjá henni og hún kveikti í sígarettunni.
„Við deyjum öll að lokum“ sagði hún og dró andann djúpt.
Fötin hennar voru rifin og hárið flókið, sólgleraugun skítug og neglurnar ósnyrtar.
Fólk gekk bara framhjá og leit ekki einu sinni á okkur.
Ég hitti Guð á götuhorni
      og hún sagði mér leyndarmál.