Fara í efni

Ljósgjafinn færir rafiðnbraut VMA góða gjöf

Fulltrúar VMA og Ljósgjafans og verkfærin umræddu.
Fulltrúar VMA og Ljósgjafans og verkfærin umræddu.
Það er gömul saga og ný að atvinnulífið á Akureyri styður vel við starf verknámsbrauta VMA með góðum gjöfum á tækjum og búnaði til þess að nota við kennslu. Þessi stuðningur við skólastarfið er Verkmenntaskólanum algjörlega ómetanlegur og hann verður aldrei of oft þakkaður. 
 
Eitt af þeim fyrirtækjum á Akureyri sem hafa reglulega sýnt rafiðnbraut VMA sérstaka ræktarsemi er Ljósgjafinn. Fyrirtækið hefur ár eftir ár fært deildinni að gjöf verkfæri og ýmislegt sem kemur henni að góðum notum. Í gær komu tveir fulltrúar Ljósgjafans, Aðalgeir Hallgrímsson rafvirkjameistari og verkstjóri og Valur Benediktsson raflagnahönnuður í VMA, fyrir hönd Ljósgjafans, og færðu rafiðnbraut skólans að gjöf verkfæri sem deildina var farið að vanta; borvélar, smergel, töng og skrælara. 
 
Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðnbrautar, segir slíkar gjafir ómetanlegar fyrir brautina og kennsluna. Mikilvægt sé að geta á hverjum tíma boðið upp á sem bestan búnað fyrir kennsluna og því sé mikill fengur að fá slíkar gjafir. Ástæða sé til þess að þakka eigendum og stjórnendum Ljósgjafans fyrir góðan stuðning og hlýhug.
 
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Guðmundur Ingi Geirsson kennari í rafiðngreinum, Baldvin B. Ringsted sviðsstjóri verknáms, Aðalgeir Hallgrímsson frá Ljósgjafanum, Valur Benediktsson, sömuleiðis frá Ljósgjafanum, og Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðnbrautar.