Lokafundur FING í VMA
Undanfarin ár hefur VMA tekið þátt í norrænu verkefni sem nefnist FING og vísar til upphafsstafa þátttökulandannna,Færeyja, Íslands, Noregs og Grænlands. Auk VMA taka þátt í verkefninu Stavanger offshore tekniske skole í Stavanger í Noregi, sem er leiðandi í verkefninu, KTI í Sisimiut á Grænlandi og Vinnuháskúlin í Þórshöfn í Færeyjum. Í gær og dag eru fulltrúar skólanna fjögurra á lokafundi verkefnisins í VMA og fara yfir það sem hefur áunnist og jafnframt eru reifaðir möguleikar á að halda þessu samstarfi áfram á einn eða annan hátt.
En hvað er FING? Segja má að áherslan í verkefninu sé á tækni, öryggis- og umhverfismál. Í upphafi var horft til ýmissa hluta sem tengdust olíuiðnaðinum, þá var í umræðunni olíuleit á Drekasvæðinu á landgrunninu fyrir norðaustan land. Lækkandi olíuverð og aukin áhersla almennt á umhverfismál breyttu áherslu í verkefninu og var þá í auknum mæli farið að horfa til öryggis- og umhverfismála. Í tvígang hafa Vilhjálmur G. Kristjánsson og Jóhann Björgvinsson, kennarar í vélstjórn í VMA, farið utan á námskeið í tengslum við verkefnið, annars vegar til Noregs þar sem áherslan var á stroffur og hífingar og hins vegar á námskeið í Færeyjum í gæðastjórnun og skjalagerð varðandi öryggisfræðslu fólks til starfa við auðlindanýtingu á norðurslóðum.
Varmadælur í Eyjum
Liður í dagskrá þessa lokaáfanga FING var fyrirlestur í VMA í gær sem dr. Ragnar Ásmundsson flutti um ýmis tæknileg atriði er lúta að varmadælum sem hafa verið notaðar með góðum árangri í Vestmannaeyjum. Fyrirlestrinum var streymt í gegnum netið til áðurnefndra þátttökuskóla FING í Færeyjum, Noregi og á Grænlandi.
Hér eru fleiri myndir frá kynningunni sem Dagur Þórarinsson og Hákon Logi Árnason tóku.
Ragnar á og rekur fyrirtækið Varmalausnir ehf. með Elíasi Þorsteinssyni, sem er kennari í vélstjórn í VMA. Þeir voru fengnir til þess að vinna að þessu verkefni í Vestmannaeyjum og óhætt er að segja að árangurinn sé góður.
En áður en lengra er haldð er rétt að rifja upp að hitaveita í Vestmannaeyjum var tekin í notkun árið 1977, fyrir meira en fjörutíu árum. Til að byrja með var nýttur varmi úr hrauninu sem rann frá eldgosinu í Heimaey árið 1973. Grafnar voru safnleiðslur fyrir gufu niður í hraunið og hún leidd að varmaskiptum til að hita bakvatn í dreifikerfi hitaveitunnar. Sama ár var einnig reist kyndistöð með 3 MW olíukatli.
Smám saman tók hraunið að kólna og gufan nægði ekki til að hita vatn hitaveitunnar. Árið 1988 var kyndistöðin stækkuð og tekinn í notkun 20 MW rafskautsketill. Einnig voru settir upp tveir 7 MW olíukatlar sem varaafl og þegar afgangsraforka væri ekki fáanleg.
Í ljósi hækkandi rafmagnsverðs og þar með aukins rekstrarkostnaðar hitaveitunnar var það niðurstaða HS Veitna, eiganda hitaveitunnar í Eyjum, að leita leiða til að lækka rekstrarkostnaðinn. Árið 2011 var gerð athugun á því að nýta sjó til að hita bakvatn hitaveitunnar með varmadælu. Þrátt fyrir lágt rafmagnsverð það ár var talið nokkuð ljóst að það kæmi til með að hækka og því myndi arðsemi með tilkomu varmadælna aukast. Því var haldið áfram með verkefnið og var lokið árið 2015 við frumhönnun. Í framhaldinu var samið við Varmalausnir ehf. um kaup á 4 Sabroe varmadælueiningum, samtals 10,4 MW.
Í stórum dráttum má segja að varmadæla vinni á svipaðan hátt og ísskápur. Í gegnum hana er leiddur sjór sem er kældur og orkan sem fæst með kælingunni er notuð til að hita upp hitaveituvatnið. Inn á varmadæluna er leiddur 7°C heitur sjór sem er kældur niður í 3°C. Að varmadælunni er leitt 34°C heitt bakvatn hitaveitu sem er hitað upp í henni. Þegar aflþörf hitaveitunnar er undir uppsettu afli varmadælunnar, 9 MW, er hitaveituvatnið hitað í 77°C sem er framrennslishiti hitaveitunnar. Þegar álag á hitaveituna er meira takmarka afköst varmadælunnar vatnshitann frá varmadælunni. Vatnið frá varmadælunni er leitt að kyndistöð hitaveitunnar og ef hitinn er lægri en 77°C er skerpt á því með rafmagnskötlunum sem þar eru.
„Meginatriðið var að þeir voru í rekstrarvandræðum með hitaveituna í Eyjum vegna þess að raforka verður alltaf dýrari og dýrari. Þeir voru á ótryggri orku og reglulega var klippt á hana og því þurfti annað slagið að skipta yfir á olíu til þess að hita vatnið. Það var mjög dýr lausn og því þurfti að finna leið til þess að lækka rekstrarkostnaðinn,“ rifjar Ragnar Ásmundsson upp. Hann segir að á þeim tíma sem bæði hann og Elías Þorsteinsson störfuðu hjá ÍSOR hafi þeir vitað af þessu vandamáli í Eyjum. „Það var á þeim tíma reynt að bora fyrir heitu vatni í Vestmannaeyjum, sem ekki bar árangur, og því þurfti að leita annarra leiða. Þá var komið að Elíasi, því honum var vel kunnugt um að þetta mætti leysa með vélbúnaði. Það var ætlunin að byrja smátt, með kannski 3 MW en síðan þróaðist málið og ákveðið var að taka stökkið í nánast einu skrefi. Farið var í útboð á hönnun og að setja upp varmadælur í þessu skyni. Við vorum valdir til verksins og útfærðum þetta með Sabroe í Danmörku. Vélarnar skila tíu megavöttum og það dugar yfirleitt, nema á sérstökum álagstímum,“ segir Ragnar. Hann segir að þetta sé langstærsta varmadæluverkefni sinnar tegundar á landinu. „Og raunar er þetta næststærsta sjóvarmadæla í heimi sem keyrir á ammoníaki og er fyrir hitaveitu,“ bætir Elías Þorsteinsson við. „Varmadælan framleiðir um tíu megavött og er að nota um þrjú og hálft megavatt. Með þessu er því verið að létta af netinu til Vestmannaeyja sem nemur um sex og hálfu megavatti af orku. Þetta sparar því gríðarlega fjármuni,“ segir Elías. Ragnar nefnir að til viðbótar nýti fiskvinnsluhúsin í Eyjum, t.d. Ísfélagið og Vinnslustöðin, kælda sjóinn úr kerfinu í vinnsluna, einkanlega til kælingar á uppsjávarafla yfir sumarið, t.d. makríl.
Sem fyrr segir var fyrirlestur dr. Ragnars hluti af dagskrá þessa lokaáfanga FING-verkefnisins. Hér eru fulltrúar allra þáttökuskólanna. Frá vinstri: Hans Hinrichsen Grænlandi, Stella Aguirre Noregi, Benedikt Barðason, skólameistari VMA, Öystein Försvoll Noregi, Wilhelm Petersen Færeyjum og Geir Tuftedal Noregi.