Lokafundur í norræna glæpasagnaverkefninu
Þann 24. apríl fóru Anette, Kristín og Snorri til Bergen til að sitja þar lokafund í Nordplus-verkefninu sem staðið hefur undanfarna þrjá vetur. Fundurinn hófst með því að hópurinn fór í tveggja tíma gönguferð um miðborg Bergen undir leiðsögn Gunnars Staalesen rithöfundar og Bergenbúa, en dagskránni lauk með ítarlegum fyrirlestri hans um norrænar glæpasögur, ekki síst hans sjálfs um Varg Veum sem orðinn er n.k. einkennistákn Bergen.
Á öðrum degi var samstarfið gert upp á fundi sem stóð fram á miðjan dag. Lokaskýrslan um samstarfið var gefin út í bráðabirgðaformi eftir fundinn en endanleg útgáfa mun væntanlega birtast síðar. Lýstu samstarfsaðilar ánægju sinni með samstarfið og afraksturinn af því, einkum þó að hafa myndað sambönd og kunningsskap við kollega í öðrum skólum og löndum og kynnst því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hjá þeim, sbr. við þeirra eigin reynslu.