Lokahátíð matartæknanema
Í vetur hefur verið í gangi hér í VMA lotunám fyrir matartæknanema. Ákveðið var að bjóða upp á námið eftir að stór hópur ófaglærðra matráða hér á Akureyri fóru í raunfærnimat í gegnum SÍMEY vorið 2011. Til að geta boðið upp á þetta sérsniðna lotunám fyrir nemendur sem höfðu farið í raunfærnimat var sótt um styrk til Sveitamennt sem styrkti félagsmenn sína, SÍMEY og VMA í þetta verkefni. Í vetur hafa 14 vaskar konur farið í gegnum faggreinar matartæknanáms og nokkrar úr hópnum hafa nú lokið náminu að fullu og útskrifast frá VMA nú í vor. Í tilefni þess að nú hafa þessar 14 konur lokið faglegum greinum námsins var haldin lokahátíð hér í VMA þar sem þátttakendur fengu staðfestingarskjal frá skólanum ásamt rós frá SÍMEY. Á hátíðinni kom fram mikil ánægja stjórnenda og kennara skólans með nemendur sína sem með miklum dugnaði, samhjálp og elju kláruðu veturinn með glæsibrag.
Útskrifaðir matartæknar ásamt kennurum
Stefnt er að því að skipuleggja lotunám matartækna sem verður í boði í VMA á næstu haust- eða vorönn. Meginmarkmið náms í matartækni er að nemendur hljóti nauðsynlega þekkingu og færni til að gegna störfum matartækna í samræmi við kröfur heilbrigðisstofnana og mötuneyti um gæði, næringu, hollustu og hagkvæmni í almennri matreiðslu og matreiðslu sérfæðis fyrir mismunandi markhópa. Matartæknanám er oft miðað við að vera samhliða starfi og þá er kennt í lotum um helgar. Nánari upplýsingar um raunfærnimat og matartæknám má sjá á heimasíðu Iðunnar og VMA.
Glæsilegur hópur