Lykilatriði að halda daglegri rútínu
Í því ástandi sem er í samfélaginu í dag eiga margir um sárt að binda og eru haldnir kvíða og streitu. Nemendur eru þar engin undantekning. Þeir nemendur í VMA sem finna til kvíða og líður illa eru hvattir til að leita til kennara sinna eða námsráðgjafa skólans. Til þess að fá viðtal við Jóhönnu Bergsdóttur, sálfræðing skólans, skulu nemendur fyrst hafa samband við námsráðgjafa VMA. Þetta á við um þá sem ekki hafa áður átt viðtöl við Jóhönnu eða verið í sambandi við hana.
Frá því að samkomubann tók gildi fyrir um tíu dögum hafa skólahús VMA verið lokuð og því er Jóhanna sálfræðingur ekki lengur til viðtals þar. Fyrr í þessari viku hefur Jóhanna þó átt viðtöl við nemendur sem til hennar hafa leitað utan skólans og hún væntir þess að fá fljótlega leyfi landlæknisembættisins til þess að eiga fjarviðtöl við sína skjólstæðinga í gegnum vefsíðu á netinu sem er örugg gagnvart öllum persónuverndarákvæðum og uppfyllir skilyrði landlæknisembættisins til fjarheilbrigðisþjónustu. Jóhanna segir að eftir að hafa fengið þetta leyfi geti hún boðið upp á fjarviðtöl á netinu en einnig geti hún hitt nemendur á stofu, í það minnsta á meðan það verði heimilt.
Jóhanna segist finna fyrir því að hraust ungt fólk fólk óttist ekki svo mjög að smitast af Covid 19 veirunni en hins vegar sé það hrætt við að smita aðra.
En hvaða ráð gefur Jóhanna nemendum sem nú stunda nám sitt fjarri skóla? „Fyrst af öllu er að fara í einu og öllu eftir tilmælum yfirvalda um sóttvarnir. Það er alls ekki óeðlilegt að fólk sé kvíðið og smeykt því þetta er okkur nýtt og framandi. En það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur öll að forðast að velta okkur of mikið upp úr þessu. Við skulum reyna að hugsa sem allra minnst um þennan faraldur daginn út og inn. Við höfum ríka þörf fyrir að halda okkar daglegu rútínu og því beini ég sérstaklega til nemenda; að vakna á sama tíma á morgnana, klæða sig og takast á við verkefni dagsins, koma sér í stellingar fyrir lærdóm dagsins og setja niður skipulega dagskrá, vera í góðu sambandi við kennarana og taka virkan þátt. Ég veit að það er freistandi að fara seinna að sofa og sofa fram eftir á morgnana en núna er gríðarlega mikilvægt að fara ekki í þann farveg með svefninn. Nú ríður á að fara á réttum tíma að sofa á kvöldin og vera vel úthvíldur að morgni dags til þess að takast á við fyrirliggjandi verkefni í skólanum, því eftir sem áður er hann í fullum gangi, þó svo að kennslan sé með öðrum hætti og nemendur og kennarar hittist ekki í skólanum. Að nemendur upplifi að þeir séu að vinna markvisst í náminu og skili verkefnum eins og áður hjálpar verulega til þess að halda kvíðanum niðri. Líði nemendum illa og þeir þurfa á hjálp að halda bið ég þá að senda póst á kennara sína eða námsráðgjafana sem geta síðan vísað þeim áfram til mín,“ segir Jóhanna Bergsdóttir, sálfræðingur.