Magnaður árangur Sóleyjar Margrétar
Það er engum blöðum um það að fletta að árangur Sóleyjar Margrétar Jónsdóttur, kraftlyftingakonu, á heimsmeistaramóti í kraftlyftingum með búnaði í + 84 kg flokki, sem lauk í Njarðvík í gær, er einn sá magnaðasti sem íslenskur íþróttamaður hefur afrekað á þessu ári. Hún lyfti samanlagt 710 kg í sínum þyngdarflokki, 40 kg meira en sú sem varð í öðru sæti, varð heimsmeistari og setti heimsmet í unglingaflokki.
Sóleyju Margréti þekkjum við vel í VMA því hún var í sjúkraliðanámi við skólann en flutti síðar suður og keppir nú undir merkjum Breiðabliks í Kópavogi.
Sóley Margrét hefur lengi unnið markvisst að þessum stórkostlega árangri. Þegar hún var í námi í VMA var hún strax í fremstu röð, ekki bara hér á landi heldur í hinum alþjóðlega heimi kraftlyftinganna.
Hér er frétt sem birtist á heimasíðu VMA um Sóleyu í maí árið 2018. Hér er önnur frétt sem birtst í apríl 2019 og sú þriðja í september 2019.
Á heimsmeistaramótinu í Njarðvík lyfti Sóley 282,5 kg í hnébeygju og tók gullið í þeirri grein. Í bekkpressu lyfti hún mest 200 kg og hlaut silfurverðlaun í greininni. Í réttstöðulyftu lyfti Sóley 227,5 kg og hlaut silfrið en þessi þyngd dugði til heimsmets í unglingaflokki. Sóley er 23 ára og færist nú upp í fullorðinsflokk. Sem fyrr segir var samanlagður árangur hennar í mótinu 710 kg sem var afgerandi sigur í fullorðinsflokki.
Sóley Margrét er ríkjandi Evrópumeistari í fullorðinsflokki og hún varð í öðru sæti á heimsmeistaramóti fullorðinna 2022 og 2023.
Verkmenntaskólinn á Akureyri óskar Sóleyju Margréti innilega til hamingju með heimsmeistaratitilinn.