Fara í efni

Mahaut og töfraskjaldbakan

Mahaut Ingríður Matharel við akrílverkið sitt við austurinngang VMA.
Mahaut Ingríður Matharel við akrílverkið sitt við austurinngang VMA.

„Ég hef gaman af allri list. Í tónlistinni hef ég verið frá því ég var lítil og ég hef líka ánægju af því að teikna og mála. Mér fannst því tilvalið að fara í hvort tveggja. Í fjölskyldu minni er fólk bæði að skapa tónlist og myndlist. Mér finnst gaman að læra og tileinka mér nýja hluti og þess vegna fór ég á listnáms- og hönnunarbraut VMA og sé ekki eftir því, kennararnir eru frábærir og nemendahópurinn æðislegur,“ segir Mahaut Ingiríður Matharel. Hún er núna á lokaönn í náminu og lýkur því stúdentsprófi í maí nk.

Þessa dagana hangir uppi akrílverk eftir Mahaut við austurinngang skólans sem hún vann í málunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á síðustu önn. Verkið ber yfirskriftina Töfraskjaldbakan er ekki farin, sem er lína úr ljóði eftir móður Mahaut, Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur, sem er sellóleikari og kennari við Tónlistarskólinn á Akureyri. En Steinunn semur einnig ljóð og hefur sent frá sér ljóðabækur.

Þetta akrílverk Mahaut tengist líka lokaverkefni hennar í náminu sem verður opinberað á sýningu á lokaverkefnum brautskráningarnema í Listasafninu á Akureyri í vor. Það verður innsetning undir ákveðnum áhrifum frá ljóðum Steinunnar móður Mahaut. Hluti af innsetningunni verður lag sem Mahaut er að semja við texta sem að hluta er sóttur í ljóðlínur frá Steinunni.

Tónlistin hefur fylgt Mahaut frá barnæsku enda foreldrarnir báðir starfandi tónlistarmenn og kennarar í tónlist. Og hún er sannarlega með mörg járn í eldinum í tónlistinni. Sem stendur er áherslan á klassískan söng og er stefnan tekin á að ljúka burtfararprófi í vor frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Eydís Úlfarsdóttir hefur verið kennari hennar í söngnum. Liður í lokaáfanganum eru einsöngstónleikar með fjölbreyttri efnisskrá þar sem fyrir koma krefjandi verk til flutnings, bæði gömul tónlist og ný. Mahaut mun m.a. flytja nýja lagið sitt sem verður hluti af innsetningunni í lokaverkefninu á listnáms- og hönnunarbrautinni í vor. Hún mun því nýta eigin sköpun á tveimur vígstöðvum.

Og eins og ekki sé nóg að vera í fullu námi í VMA og á lokaönn í klassískum söng er Mahaut einnig í svokölluðu skapandi námi í Tónlistarskólanum og stefnir á að ljúka því í framhaldinu. Þar er lögð áhersla á allskonar eigin sköpun í tónlist. Sem hluta af náminu er Mahaut í fjögurra manna hljómsveit, með henni eru samnemendur hennar í skólanum. Hljómsveitin ber nafnið Baukur og þar spilar Mahaut á bassa og syngur. Á efnisskránni er allt frá gæðarokki til einfaldrar dægurtónlistar.

Og til viðbótar stundar Mahaut fjarnám í hörpuleik. Kennarinn hennar er Elísabet Waage hörpuleikari og kennari við Tónlistarskóla Kópavogs. Mahaut fer annað slagið suður til þess að hitta Elísabetu en þess á milli er hún í fjarkennslustundum með henni.

Harpan hefur heillað Mahaut frá barnsaldri. Harpan er sannarlega ekki algengt hljóðfæri en heillandi er hún. Eftir því sem næst verður komist eru bara tvær hörpur til á Akureyri, annars vegar harpa í eigu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og hins vegar minni harpa sem Mahaut á. Annað slagið fær hún tækifæri til þess að spila opinberlega á hörpuna, t.d. á tónleikum Hljómsveitar Akureyrar í Glerárkirkju um síðustu helgi.

Fyrst klassíski söngurinn, síðan skapandi tónlistin og loks harpan. Allt er þegar þrennt er! En hvað ætlar Mahaut að leggja fyrir sig í listinni í framtíðinni? Eins og staðan er núna, segir hún, langar hana í frekara nám erlendis í hörpuleik. En það getur vel verið að þau áform taki breytingum, bætir hún við.

Og svona til hliðar við alla listsköpunina. Einu sinni í viku liggur leiðin í reiðhöllina ofan Akureyrar. Hestarnir heilla Mahaut og hún vill læra og tileinka sér eitt og annað í reiðmennsku. Allt sem hægt er að læra er heillandi, segir hún.