Málar Petrykivka myndir með penslum úr kattahárum
Kattahár nýtast á ýmsan hátt, meðal annars til listsköpunar. Ioanna Borysova hefur í listnámi sínu á listnáms- og hönnunarbraut VMA málað Petrykivka myndir, sem er sérstök úkraínsk málaralist, eins konar skreytingamyndir, með penslum sem hún hefur búið til úr kattahárum. Petrykivka málaralistin á uppruna sinn í samnefndu þorpi, Petrykivka í Dnipropetrovsk í austurhluta Úkraínu.
Ioanna Borysova er frá borginni Kamianske í austurhluta Úkraínu. Hún var í hópi þeirra fjölmörgu Úkraínumanna sem lögðu á flótta eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022. Ioanna kom með móður sinni til Íslands í apríl á síðasta ári og í vetur hefur hún stundað nám í VMA og einnig sótt íslenskunám í SÍMEY.
Núna á vorönn er Ioanna m.a. í myndlistaráfanga hjá Hallgrími Ingólfssyni á listnáms- og hönnunarbraut VMA og þar hefur hún m.a. málað Petrykivka myndir. Raunar hefur hún gert það frá barnsaldri. Hér eru t.d. myndir sem Ioanna málaði þegar hún var sjö ára gömul og hér eru dæmi um nýlega unnar Petrykivka myndir Ioönnu.
Petrykivka málverkið er þekkt í Úkraínu frá átjándu öld og hefur síðan þróast og dafnað. Ekki síst er það þekkt sem form veggskreytinga eða sem skreytingar á húsmuni. Blómamynstrin eru áberandi og til þess að ná fram öllum þessum fínu línum segir Ioanna að þurfi mjög fíngerða pensla. Kattahárin segir Ioanna að henti einstaklega vel í pensla fyrir þessa tegund myndlistar, þeir séu mjúkir og fínlegir og því auðveldara að draga fínar línur.
Ioanna hefur ekki kött hér á Íslandi en samnemendur hennar í VMA redduðu málum og útveguðu kattahár. Núna hefur Ioanna yfir að ráða nokkrum penslum með hárum úr akureyrskum köttum og eyðir mörgum stundunum við myndlistarsköpun í anda Petrykivka skreytingalistarinnar.
Ekki aðeins er Petrykivka merkilegur hluti myndlistar í Úkraínu. Á heimsvísu þykir þessi tegund myndlistar einstök og því útnefndi UNESCO hana árið 2013 á heimsminjaskrá.
Fjarri heimkynnum sínum fylgist Ioanna með stríðshörmungum í heimalandinu í fréttamiðlum og einnig er hún í góðu sambandi við skyldmenni og vini í Úkraínu. Hún lætur vel af sér á Íslandi og í VMA og horfir til þess að læra gull- og silfursmíði í framtíðinni. Það kemur ekki á óvart því sú iðngrein krefst mikillar nákvæmni og fíngerðra hreyfingu, rétt eins og Petrykivka myndsköpunin.