Málverk vikunnar eftir Dagrúnu Erlu Finnsdóttur
Núna á vorönn eru með reglulegu millibili hengd upp málverk á vegg við aðalinngang VMA að austan. Verkin eru unnin af nemendum listnámsbrautar í áfanganum MYL 504. Málverk vikunnar er akrílverk á striga, unnið af Dagrúnu Erlu Finnsdóttur, 24 ára Akureyringi, sem stefnir á áframhaldandi listnám í Danmörku.
„Ég byrjaði að vinna þetta verk sem „portrait“-mynd, en síðan tók hún aðra stefnu. Ég fór inn á Google og fann þar myndir af heimilislausum. Ein myndin hafði sérstaklega mikil áhrif á mig og ég ákvað að mála út frá þeirri mynd. Það heillar mig mest að vinna með djúpar og sterkar tilfinningar,“ segir Dagrún Erla um mynd sína.
Dagrún Erla bjó með fjölskyldu sinni um tíu ára skeið í Danmörku og þegar hún kom aftur til Íslands 16 ára gömul segist hún hafa þurft að byrja nánast upp á nýtt að læra að tala og skrifa. Eftir að hafa náð þessum grunni á nýjan leik hafi hún ákveðið að fara á listnámsbraut og hún sjái ekki eftir því. „Mér hefur aldrei gengið neitt sérlega vel í skóla, en í þessu námi fann ég mig og er því sátt að hafa valið þessa braut. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegur tími á listnámsbrautinni. Þarna fáum við að prófa okkur áfram í svo mörgu. Þegar upp er staðið hefur mér fundist hvað skemmtilegast að mála,“ segir Dagrún Erla, sem stefnir á að ljúka námi í vor og síðan horfir hún til þess að halda áfram á þessari braut á fornum slóðum á Jótlandi í Danmörku.