Málverkið heillar
Akureyringurinn Úlfur Logason lýkur námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar VMA í vor. Málverkið heillar, sem kemur ekki á óvart því Úlfur hefur vakið athygli fyrir óvenju mikinn þroska í sinni listgrein á þessum aldri. Hann er þegar farinn að skoða skóla í útlöndum, fyrst og fremst Þýskalandi og Skandinavíu, til þess að mennta sig frekar í myndlistinni.
Í akrílverki sem Úlfur vann í áfanganum MYL 504 fyrir áramót og sjá má á veggnum gegnt austurinngangi VMA segir hann að séu ýmsar pælingar í gangi. „Sumar pælingarnar sjást en aðrar ekki,“ segir Úlfur. „Ég valdi mér að vinna með svín því mér finnast þau á margan hátt áhugaverð, ekki síst vegna þess að fyrir okkur hafa þau líklega minnst tilfinningalegt gildi af húsdýrunum. Svínið er fyrst og fremst kjötflykki og ef maður hugsar um það symbólískt stendur það á vissan hátt fyrir græðgi og óþrifnað.“
Úlfur segist frekar kjósa að vinna olíuverk en akrílverk. Hann segist lengi hafa fengist við að teikna en síðustu árin hafi hann fært sig yfir í málverkið. Hann segist einnig hafa unnið með vatnsliti sem hann fékk á sínum tíma innsýn í hjá afa sínum, Einari heitnum Helgasyni. Kennsla hans á sínum tíma hafi ýtt undir áhugann á myndlistinni. En einnig segir Úlfur að það hafi sitt að segja að listagenin séu allt um kring því faðir hans, Logi Már Einarsson, sé arkitekt og móðir hans, Arnbjörg Sigurðardóttir, afar músíkölsk og spili á flautu og syngi.
Þrátt fyrir að vera aðeins átján ára gamall hefur Úlfur nú þegar haldið tvær málverkasýningar. Hann segist taka skorpur í myndlistinni og hafi ágæta aðstöðu úti í bílskúr fjölskyldunnar í Munkaþverárstræti til þess að mála. „Ég hef mikinn áhuga á öllum sjónrænum listum sem og bókmenntum og ég hef einnig ánægju af því að hlusta á tónlist. Að fylgjast vel með öðrum listgreinum er mér mikilvægt til þess að fá fjölbreyttar hugmyndir,“ segir Úlfur.
Úlfur rifjar upp að upphaflega hafi hann ákveðið að fara í VMA en rétt áður en umsóknarfresturinn rann út hafi hann breytt um kúrs og skráð sig í MA. Þrátt fyrir að honum hafi líkað þar ljómandi vel segir Úlfur að innst inni hafi hann vitað að réttari hilla hans væri í myndlistinni og því hafi hann strax eftir fyrstu önnina ákveðið að færa sig upp í VMA og á listnámsbraut. Stúdentsprófi af þeirri braut lýkur hann í vor. Hann segist afar sáttur við nám sitt á listnámsbrautinni, kennslan hafi verið framúrskarandi góð og hann hafi lært margt og telji sig vel undirbúinn fyrir frekara nám í myndlist.