Manga heillar
„Myndskreyting á sögum finnst mér áhugaverðust,“ segir Hrefna Fanney Rögnvaldsdóttir, 19 ára nemi á listnámsbraut VMA, sem segir sérstaklega heillandi að takast á við „Manga“ – japanskar myndasögur.
Hrefna Fanney er frá Ísafirði en flutti til Akureyrar á rúmlega miðri grunnskólagöngu. Að grunnskóla loknum kom ekkert annað til greina en að fara á listnámsbraut í VMA. „Mér hefur alltaf fundist gaman að teikna og því var ég ekki í vafa þegar ég heyrði af listnámsbrautinni hér,“ segir Hrefna sem vonast til þess að ljúka náminu um næstu jól.
Á haustönn vann Hrefna Fanney hringlaga akrílverk sem hún kallar „Ég geri það sem ég vil“. Hún segir að fyrirmælin hafi verið þau að vinna verk út frá því sem hún hefði áhuga á. „Minn áhugi liggur í því að teikna fígúrur og gera fantasíur – sem eru ekki raunverulegar. Útkoman var kanínustelpa, sem ég vann út frá teikningu sem ég gerði í grunnskóla. Utanum þessa fígúru málaði ég ský og setti hana þannig inn í ákveðinn töfraheim. Mér fannst koma best út að gera verkið hringlaga og því náði ég mér í plötu og nemendurnir í byggingadeildinni voru svo elskulegir að saga hana til fyrir mig,“ segir Hrefna.