Mannréttindi á þemadögum í VMA - mannréttindadagur barna í dag
Á þemadögum í þessari viku í VMA hefur sjónum verið beint að mannréttindum frá ýmsum hliðum, sem er engin tilviljun því í dag er alþjóðlegur dagur mannréttinda barna um allan heim.
Á ensku er dagurinn kallaður World Children‘s Day og hefur hann verið haldinn árlega 20. nóvember síðan 1954 á vegum Sameinuðu þjóðanna í því skyni að minna heimsbyggðina á velferð og réttindi barna. Einnig er á þessum degi þess minnst að yfirlýsing um réttindi barna var staðfest af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1959 og þrjátíu árum síðar staðfesti allsherjarþingið Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og Alþingi lögfesti hann síðan árið 2013.
Í lögfestingu Barnasáttmálans felst að aðildarríki hans skuldbinda sig til þess að kynna innihald hans fyrir jafnt börnum sem fullorðnum. Liður í að upplýsa landsmenn um sáttmálann er vefur um Barnasáttmálann sem verður í dag opnaður uppfærður og endurnýjaður. Á þessum vef er Barnasáttmálinn á barnvænu máli og á táknmáli. Jafnframt er á vefnum vefþula sem nýtist blindum og sjónskertum börnum.
Að vefnum standa Barnaheill – Save the Children á Íslandi, UNICEF á Íslandi og Umboðsmaður barna, í samvinnu við Menntamálastofnun og hefur verkefnið verið styrkt af ríkinu.