Margir nýttu sér boð um heilsufarsmælingar
Ánægjulegt var hversu margir bæði starfsmenn og nemendur nýttu sér að mæta í heilsufarsrannsókn í VMA í gær, þar sem bæði var mældur blóðsykur og blóðþrýstingur. Hannesína Scheving, hjúkrunarfræðingur og kennari við sjúkraliðabraut VMA, segir það hafa verið sérlega ánægjulegt hversu margir nemendur mættu í mælingar. Þó svo að nemendur séu ungir að árum og almennt frískir geti verið undirliggjandi áhættuþættir varðandi hjarta- og æðasjúkdóma, t.d. ef slíkir sjúkdómar eru þekktir í fjölskyldu viðkomandi.
Hjúkrunarfræðinemar úr Háskólanum á Akureyri mættu í VMA og lögðu sitt af mörkum við mælingar á blóðsykri og blóðþrýstingi fólks. Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar við þetta tækifæri.
Þetta heilsufarsátak var kallað GoRed dagurinn, sem vísar til þess að konur eru sérstaklega hvattar til þess að huga að þessum málum. Á blaði sem fólk fékk í gær sem fór í heilsufarsmælinguna segir um helstu áhrifaþætti hjarta- og æðasjúkdóma hjá konum (flestir eru þessir þættir einkennalausir og því þarf að mæla þá sérstaklega):
Aldur
Reykingar - kona sem reykir er þre- eða fjórfaldar áhættu á að fá hjartasjúkdóma
Sykursýki er alvarlegur áhættuþáttur hjá konum
Blóðfituröskun
Háþrýstingur
Ættarsaga með kransæðasjúkdóm hjá 1. gráðu ættingjum
Ofþyngd - sérstaklega aukin kviðfita
Offita
Hreyfingarleysi
Konur eru sagðar líklegri til þess að upplifa eftirfarandi einkenni hjartaáfalls:
Óútskýrðan slapplega eða þreytu
Óeðlilegt kvíðakast eða verða taugaóstyrkar
Meltingartruflanir eða verk vegna uppþembu
Konur og karlar upplifa eftirfarandi einkenni hjartaáfalls:
Þyngsl eða verk fyrir brjósti eða fyrir neðan bringubein
Óþægindi eða verk milli herðablaða, í hálsi, kjálka eða maga
Verk sem kemur við áreynslu og hverfur við hvíld og getur verið fyrirboði kransæðastíflu
Stöðugan verk fyrir brjósti, e.t.v. með ógleði og kaldsvita sem getur bent til kransæðastíflu og krefst tafarlausrar meðferðar
Konur og karlar upplifa eftirfarandi einkenni heilaslags:
Dofa eða máttleysi í andliti, handlegg eða fæti, aðallega í öðrum helmingi líkamans
Ringlun, erfiðleika með að tala eða að skilja
Erfiðleika með að sjá með öðru eða báðum augum
Erfiðleika með gang, svima, skort á jafnvægi eða samhæfingu
Slæman höfuðverk af óþekktri orsök
Yfirlið eða meðvitundarleysi