Margrét og SuperBlack í þriðjudagsfyrirlestri
Margrét Jónsdóttir, leirlistakona á Akureyri, heldur fyrirlestur í Ketilhúsinu í dag, þriðjudaginn 19. febrúar kl. 17:00-17:30, undir yfirskriftinni Innvortis náttúra. Margrét segir frá samnefndri innsetningu sem er hluti af sýningu hennar og Kristínar Gunnlaugsdóttur, SuperBlack, og stendur nú yfir í Listasafninu.
Grunntónn verkanna á SuperBlack sýningunni er svartur. Hugmyndin er fengin frá nýuppgötvuðum svörtum lit, Vantablack, sem lýsir algjöru tómi. Í þessu tómi velkjast tilvistarspurningar nútímamannsins: Hvar við stöndum gagnvart náttúrunni og okkur sjálfum?
Svört leirverk Margrétar Jónsdóttur minna á svarta sanda og hraunbreiður Íslands. Þau velta upp spurningunni um hvort við færum betur með náttúruna ef við sæjum hana sem mannslíkama; með líffæri eins og okkar eigin.
Margrét og Kristín Gunnlaugsdóttir hafa sýnt áður list sína saman. Það gerðu þær í Nesstofu árið 2014 og nefndu sýninguna Kláði, sviði, verkur, bólga og pirringur. Í september 2017 settu þær fyrst upp þessa SuperBlack sýningu í Nordatlantens Brygge Í Kaupmannahöfn, síðan fór hún til Færeyja í febrúar 2018, þar sem hún var sett upp í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn og nú er hún komin í Listasafnið á Akureyri.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir í Ketilhúsinu eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins.
Ókeypis er á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir.