Matsönn: Stúdentspróf á þremur árum er raunhæfur kostur
Þau eiga það öll sameiginlegt að ljúka stúdentsprófi frá VMA í vor og sömuleiðis eiga þau það öll sameiginlegt að ljúka náminu nítján ára, en ekki tvítug eins og algengast er. Elín Helga Björnsdóttir, Birna Ósk Gunnarsdóttir og Halldór Arnarsson tóku á sínum tíma svokallaða matsönn, sem þýðir að á síðustu önn sinni í grunnskóla voru þau jafnframt í fjarnámi í VMA og tóku síðan próf um vorið í nokkrum greinum í VMA. Þannig höfðu þau öll lokið nokkrum einingum þegar þau hófu reglulegt nám í VMA. María Dís Ólafsdóttir stytti sér leið í grunnskóla og hoppaði yfir áttunda bekk.
Birna Ósk Gunnarsdóttir: Á vorönn í tíunda bekk kom ég á fund hérna í VMA þar sem ég fékk
kynningu á þeim möguleika að taka hér strax próf í nokkrum fögum og ég gæti þannig hafa lokið nokkrum einingum þegar
ég kæmi síðan um haustið í skólann. Mér bauðst að taka 14 einingar og ég ákvað að taka þær allar. Tók
því þá um vorið bæði próf í grunnskólanum mínum, Lundarskóla hér á Akureyri, og VMA. Þetta
þýddi að þegar ég kom í VMA fór ég beint í framhaldsáfanga í ensku, íslensku og stærðfræði.
Það er ekkert launungarmál að matsönn, þessi valkostur í VMA, varð til þess að ég ákvað að fara í VMA og
ég sé ekki eftir því. Þetta varð til þess að ég sá þann möguleika ganga upp að taka námið á þremur
árum og ljúka stúdentsprófi nítján ára, eins og ég hafði alltaf haft í huga. Þetta hefur ekki verið neitt
sérstaklega strembið, flestar annirnar hef ég tekið í kringum 20 einingar en eina var ég líka í fjarnámsáföngum og tók
þá 27 einingar. Eftir þessa önn á ég tæplega 20 einingar eftir sem er bara passlegt að taka á vorönn. Ég útskrifast
síðan í vor af viðskipta- og hagfræðibraut með venjulegan fjölda eininga til stúdentsprófs.
Elín Helga Björnsdóttir: Ég fór í gegnum sama ferli og Birna Ósk. Ég kom hingað úr grunnskóla,
Glerárskóla hér á Akureyri, og var búin að ákveða að fara í hárgreiðslu í VMA, sem ég síðan gerði.
Í gegnum matsönnina tók ég átta einingar upp í kjarnann fyrir hárgreiðsluna, þ.e. einingar í grunnfögum. Til að byrja með
tók ég tvær annir sem undirbúningsnám fyrir hárgreiðsluna – tók 22 einingar á hvorri önn og hafði því lokið
50 einingum í bóklegu námi eftir fyrsta árið. Síðan komst ég inn í hárgreiðsluna og tók þá 24 einingar á
þriðju önn og síðan 28 einingar á fjórðu önn. Það kom síðan í ljós að hárgreiðslan var ekki í
boði sl. haust þar sem ég var stödd í náminu og því ákvað ég þess í stað að skrá mig í
náttúrufræðideild og ég tek því 24 einingar í henni þessari haustönn og á milli 20 og 30 einingar á vorönn.
Þegar upp verður staðið í vor hef ég þá lokið stúdentsprófi af náttúrufræðibraut á þremur
árum með á bilinu 150-160 einingar. En eftir sem áður hef ég fullan hug á því að ljúka hárgreiðslunáminu og
það ætla ég mér að gera. Þá get ég einbeitt mér að verklega hlutanum og að komast á samning í faginu
því þá hef ég lokið öllum grunnfögunum – t.d. tungumálunum og stærðfræði. Til þess að ljúka
hárgreiðslunni á ég eftir þrjár annir í skólanum auk eins og hálfs árs á samningi.
Fyrir mig var þessi matsönn algjör snilld. Staðreyndin er sú að grunnáfangarnir, t.d. í stærðfræði, eru fyrst og fremst upprifjun
á því sem maður lærði í grunnskólanum. Mér fannst því gott að vera laus við að eyða tímanum í
að fara í gegnum þetta námsefni aftur.
Halldór Arnarsson: Ég var í Grunnskólanum á Sauðárkróki en síðan fluttist fjölskyldan til Akureyrar eftir að ég hafði lokið tíunda bekk. Móðir mín hafði spurnir af matsönn í VMA og benti mér á þann möguleika. Það varð úr að ég fór í gegnum þetta ferli um vorið þegar ég var að klára tíunda bekkinn á Sauðárkróki og tók hér níu einingar. Við fengum bókalista, glærur og efni og sáum hvaða efni við þyrftum að standa skil á. Komum síðan hingað í skólann og tókum próf eins og aðrir nemendur. Þetta hentaði mér mjög vel og ég hafði því lokið þessum níu einingum þegar ég kom í VMA um haustið. Ég hafði þá ekki tekið ákvörðun um að ljúka náminu á þremur árum en fljótlega sá ég möguleika á því og fór að skipuleggja námið út frá þeim forsendum. Ég er á félagsfræðibraut og fyrsta árið var ég á nokkuð venjulegu róli í námseiningum. Ég bætti síðan við mig einingum í fjarnámi á öðru ári og þá hafði ég mikið að gera. Þetta snýst um að skipuleggja sig vel og þegar maður gerir það á maður alltaf sinn tíma fyrir utan skólann.
María Dís Ólafsdóttir: Ég fór ekki í gegnum matsönnina en á sínum tíma sleppti ég áttunda bekk í mínum grunnskóla, Öxarfjarðarskóla, og stytti mér þannig leið í námi um eitt ár. Ég kom því inn í VMA sem venjulegur nemandi úr tíunda bekk, getum við sagt, nema einu ári yngri. Ég kom úr litlum grunnskóla og rak mig fljótt á að í sumum greinum hefði ég þurft að hafa betri grunn en í öðrum fögum var ég mun betur undirbúin en bekkjarfélagar mínir. Gagnvart skólanum og náminu er ekkert mál að vera ári yngri en gagnvart öðru hef ég rekið mig á að það getur verið snúið að vera ári yngri en bekkjarfélagarnir. Þetta á til dæmis við um bílprófsaldurinn og ýmislegt annað. Ég hef tekið námið hér á fjórum árum og lýk því eins og Birna Ósk, Elín Helga og Halldór nítján ára eða ári fyrr en venja er til með stúdentspróf. En það sem þó er kannski eilítið frábrugðið því sem gengur og gerist er að ég lýk náminu af þremur námsbrautum. Ég kom fyrst inn á félagsfræðibraut og fljótlega sá ég möguleikann á því að klára einnig náttúrufræðibrautina. Við nánari skoðun komst ég að raun um að ég þyrfti ekki að bæta við mig neitt óskaplega mörgum einingum til þess að ljúka einnig viðskipta- og hagfræðibraut. Ég sá einnig að bæði náttúrufræðibrautin og viðskipta- og hagfræðibrautin myndu nýtast mér mjög vel í líftækni sem ég stefni á að fara í hér í Háskólanum á Akureyri, þó líklega ekki fyrr en haustið 2015. Þegar upp er staðið sýnist mér ég ljúka stúdentsprófi í vor héðan frá VMA með um 170 einingar.
Elín Helga Björnsdóttir: Matsönn hentar sumum vel en öðrum ekki. En það er frábært að þessi möguleiki skuli vera til staðar fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla. Í framhaldinu af stúdentsprófinu í vor hef ég hug á því að taka mér hálfs árs pásu frá námi og fara annað hvort út fyrir landssteinana sem „au pair“ eða ferðast um heiminn. Ég tel mikilvægt að grípa gæsina og gera eitthvað í þessa veru áður en ég helli mér í að klára hárgreiðsluna. Það er ekki víst að tækifæri gefist síðar til þess að ferðast og sjá sig um í heiminum.
Birna Ósk Gunnarsdóttir: Ég er svo heppin að ég er búin að fá skólavist í Hult International Buisness School í London og fer í hann strax í haust. Þetta kom nú þannig til að ég tók enskupróf í Reykjavík og einhverra hluta vegna, sem mér eru ekki kunnugt um, bárust niðurstöður prófsins til Hult. Í kjölfarið fékk ég upphringingu frá skólanum þar sem ég var hvött til þess að sækja um, sem ég gerði og fékk fyrir stuttu staðfestingu á skólavist. Ég held að það sé engin spurning að það hefur hjálpað til með að fá inni í þessum skóla að ég er að ljúka stúdentsprófinu hér á þremur árum.
Halldór Arnarsson: Ég er ekki búinn að ákveða hvaða nám ég fer í eftir VMA. Ég er því að hugsa um að fá mér vinnu til að byrja með og fara síðan í reisu til Asíu. Það kemur síðan í ljós í framhaldinu af því hvaða nám verður fyrir valinu.