Með grímur á leiklistarnámskeiði
Í gær lauk leiklistarnámskeiði sem Leikfélag VMA stóð fyrir. Námskeiðið var ágætlega sótt og er Embla Björk Jónsdóttir, annar tveggja formanna félagsins, afar ánægð með hvernig til tókst.
Covid 19 faraldurinn hefur heldur betur gert Þórdunu – nemendafélagi VMA erfitt fyrir í félagslífinu í vetur. Það sem af er þessu skólaári hefur einfaldlega ekki mátt efna til viðburða vegna sóttvarnareglna en hins vegar reyndist unnt að efna til leiklistarnámskeiðs. Embla Björk segir að til þess að unnt væri að halda fjarlægðarmörkum hafi verið miðað við að hámarki tuttugu þátttakendur. Sextán tóku þátt í námskeiðinu og því var þetta allt innan marka. „Við vissum ekkert hverjar viðtökurnar yrðu vegna covid og það kom okkur skemmtilega á óvart að það skyldu þó þetta margir skrá sig,“ segir Embla Björk, en auk hennar stóðu að námskeiðinu María Björk Jónsdóttir, Katrín Helga Ómarsdóttir og Elín Gunnarsdóttir. Allar eru þær í stjórn Leikfélags VMA.
„Námskeiðið tókst mjög vel og þetta var ótrúlega skemmtilegt. Við gerðum ótal margt í þessi fjögur skipti sem við hittumst, fórum í leiklistarleiki af ýmsum toga, unnum í spuna og fleira. Það var mjög ánægjulegt að námskeiðið sótti fullt af nýju fólki sem ekki hefur áður starfað með Leikfélagi VMA. Þetta var kröftugur hópur og ég veit til þess að margir þeirra sem sóttu námskeiðið ætla að fara í prufu fyrir Grease, sem verður 7. október nk. Sá góði andi og kraftur sem var á þessu námskeiði gefur svo sannarlega góð fyrirheit um það sem koma skal í Grease. Ég get varla beðið eftir að vinna við þá uppfærslu hefjist,“ segir Embla Björk og hvetur alla sem áhuga hafa, hvort sem þeir voru á þessu leiklistarnámskeiði eða ekki, að skrá sig í prufur í Grease.
Námskeiðið var í Gryfjunni og þar var rýmið nýtt vel til þess að unnt væri að fylgja sóttvarnareglum. Til þess að undirstrika mikilvægi smitvarna var grímuskylda á námskeiðinu. Þessar myndir tók Hilmar Friðjónsson á leiklistarnámskeiðinu í vikunni.