Sjötíu og átta brautskráningar að baki
Í fjörutíu ára sögu Verkmenntaskólans á Akureyri hafa verið, eftir því sem næst verður komist, sjötíu og átta brautskráningar og því verður vorbrautskráningin í Hofi í næsta mánuði sú sjötugasta og níunda.
Skólastarfið hófst haustið 1984 og var fyrsta formlega brautskráningin í húsakynnum VMA sunnudaginn 20. janúar 1985. En fyrsta brautskráning skólans að vori var í Akureyrarkirkju þann 1. júní 1985. Þar brautskráði Bernharð Haraldsson skólameistari liðlega hundrað nemendur; stúdenta, sjúkraliða, iðnnema, nemendur af raungreinasviði tækniskóla, tækniteiknara, vélstjóra og matsveina á fiskiskipum. Í skólaslitaræðunni sagði Bernharð m.a:
Þetta fyrsta starfsár Verkmenntaskólans á Akureyri hefur verið viðburðaríkt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Innritaðir nemendur voru um 780 við upphaf skólaárs, um 100 færri á vorönn, nokkrir útskrifuðust við haustannarlok, námshópar fóru um annaskipti og aðrir komu, allmargir nemendur hafa hætt af ýmsum ástæðum og er víst ekkert við því að segja.
Skólahaldið hefur goldið umróts í þjóðfélaginu í vetur, verkföll, vinnudeilur og umræða um skólamál, allt of oft einkennd af vanþekkingu, hafa óhjákvæmilega sett mark sitt á starfið. Það má enginn líta svo á, að skóli sé einangrað fyrirbæri innan luktra veggja, þangað inn berst þungur ölduniður, orð og atburðir umhverfisins fara ekki framhjá neinum og því skal ekki leynt, að okkur hefði komið betur, svona á fyrsta starfsári, meðan barnssporin voru hvað erfiðust, að fá frið og ró, til að njóta þeirrar ánægju að mega fást við þekkingu og fræði með ungu fólki, nýta dýran tímann til hins ítrasta. Námsbrautin varð því mörgum erfiðari en til stóð, en margir nemendanna, ég vil segja þorri þeirra, stóð af sér öldurótið og stefndu ótrauð að hinu upphaflega marki.
Að útskrift í Akureyrarkirkju lokinni var tekin fyrsta hópmynd brautskráningarnema við kirkjudyr. Á myndinni voru einungis brautskráðir stúdentar og svo var á hópmyndum brautskráningarnema fyrstu starfsár skólans. Frá 1985 til 1992 var brautskráð einungis að vori, í lok skólaársins, en frá og með 1993 og óslitið síðan hafa verið tvær brautskráningar á ári, í maí og desember. Undantekningin er desemberútskriftin árið 2000. Kennaraverkfall skall á 10. nóvember 2000 og stóð til 10. janúar 2001 og því var ekki unnt að útskrifa á hefðbundnum tíma rétt fyrir jól. Þess í stað voru nemendur sem áttu að útskrifast í desember 2000 útskrifaðir með formlegum hætti þann 10. febrúar 2001.
Fyrsti nemandinn sem VMA brautskráði var Elísabet Hreiðarsdóttir, sjúkraliði, og sem táknræna viðurkenningu fékk hún að gjöf lítinn lampa, til að minna á brautryðjendastarf Florence Nightingale í Krímstríðinu.
Fyrsta brautskráningin í húsakynnum í janúar 1985 fór fram á sal húss tæknisviðs skólans og á eftir var boðið til kaffidrykkju á hússtjórnarsviði. Þessi litla brautskráning átti að vera fyrir jól eins og var meginreglan síðar en svo vildi til að fyrsta haustið sem skólinn starfaði, árið 1984, var langt og erfitt verkfall. Það raskaði ýmsu í kennslu og námi, reynt var að vinna tapaðan tíma með kennslu á laugardögum og kennsla á vorönn hófst ekki fyrr en mánudaginn 21. janúar.
Allan starfstíma Verkmenntaskólans hafa brautskráningar verið tvisvar á ári, við lok haustannar og svo við lok skólaársins. Reyndar voru athafnirnar fleiri fyrstu árin, því millibekkjaskírteini, s.s. almennt verslunarpróf og fyrri stig vélstjórnar, voru afhent við svokallaða „Mackintosh“ athöfn, sem fór oftast fram á kennarastofunni að kvöldlagi. Nemendur tóku foreldra eða vini með sér, boðið var upp á kaffi, gosdrykki og Mackintosh konfekt.
Frá fyrstu vorbrautskráningunni í Akureyrarkirkju hefur Páll A. Pálsson ljósmyndari tekið hópmyndir brautskráninganema VMA. Þó voru ekki teknar myndir af brautskráningarnemum á vetrarútskrift frá 1985 til og með 1992.
Fyrstu árin voru vorbrautskráningar í Akureyrarkirkju en árið 1991 færðust þær í Íþróttahöllina og voru þar í nokkur ár, en desemberútskriftirnar voru í húsakynnum VMA, síðari árin í Gryfjunni. Í nokkur voru vorútskriftir einnig í Gryfjunni í VMA en loks færðust þær, bæði í desember og maí, í Menningarhúsið Hof.
Palli ljósmyndari tók fyrstu hópmyndina við kirkjudyr Akureyrarkirkju, en eftir að brautskráningarnar fluttust upp í Íþróttahöll voru myndirnar teknar í Stefánslundi, norðan MA. Undantekning frá reglunni var vorið 1989 þegar hópmyndin var tekin innandyra á Eyrarlandsholti vegna veðurs og 1999 var hún tekin í Íþróttahöllinni. Þegar byrjað var að útskrifa í Gryfjunni voru flestar myndirnar teknar þar. Og eftir að byrjað var að útskrifa í Hofi hafa myndirnar verið teknar á sviðinu þar.
Árið 2020 nýtur algjörrar sérstöðu, enda tímarnir fordæmalausir í Covid 19. Vorbrautskráningin það ár, sem var í Gryfjunni, var fyrir margra hluta sakir sérstök, eins og skrifað var hér í frétt á brautskráningardaginn, föstudaginn 22. maí:
Í fyrsta lagi vegna aðstæðna sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur skapað, sem gerði það að verkum að vegna fjöldatakmarkana var ekki unnt að hafa brautskráninguna í Menningarhúsinu Hofi eins og venja er, í öðru lagi er þessi brautskráning ein sú allra stærsta í 36 ára sögu VMA, ef ekki sú stærsta, og í þriðja lagi hafa aldrei fleiri verknemar fengið afhent brautskráningarskírteini í sögu skólans eða 114. Heildarfjöldi brautskráðra í dag er 191 nemandi með 218 skírteini af 34 námsbrautum.
Sóttvarnareglur heimiluðu ekki hópmyndatöku alls brautskráningahópsins og því er hún ekki til. Þess í stað tók Hilmar Friðjónsson kennari myndir af hverjum námshóp og einstaklingsmyndir af nemendum. Úr þeim gerði Páll A. Pálsson síðan skólaspald upp á gamla mátann. Það sama var uppi á teningnum á desemberútskrift í Hofi það sama ár, Páll tók einstaklingsmyndir og setti upp á skólaspjald með brautskráningarnemum.
Auðvitað er það svo að í gegnum tíðina hafa ekki allir brautskráningarnemar VMA ratað á hópmyndir Palla ljósmyndara enda er það jafnan svo að fjarri því allir mæta til brautskráningar. En engu að síður eru þessar myndir ómetanlegar heimildir fyrir bæði nemendur og skólann.
Palli ljósmyndari hefur sem sagt skráð söguna með því að taka brautskráningarmyndir af nemendum á hátt í sjötíu af sjötíu og átta brautskráningum. Allar eru þessar myndir á veggjum skólans í A- og B-álmu og geyma merka sögu.