Með myndlistina í bakpokanum
Í dag, þriðjudaginn 4. mars kl. 17-17.40 heldur Þórgunnur Þórsdóttir, sérfræðingur á Safnasafninu, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Með myndlistina í bakpokanum. Þar fjallar hún um hvernig myndlist hefur fléttast inn í ferðalag hennar frá áhugaljósmyndun í átt að menningarmiðlun, safnastarfi og sýningarhönnun.
Þórgunnur er með diplómu í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík og BA-gráðu í samtímalist frá University of Cumbria á Englandi. Hún starfar á Safnasafninu, höfuðsafni íslenskrar alþýðulistar, en starfaði áður sem fræðslufulltrúi hjá Minjasafninu á Akureyri og sýningarstjóri hjá Svavarssafni, listasafni Svavars Guðnasonar, á Hornafirði. Þórgunnur hefur sett upp og skipulagt sýningar og viðburði á Íslandi og tekið að sér fjölbreytt safnfræðslu- og margmiðlunarverkefni.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Myndlistafélagsins og Gilfélagsins.