Mennta- og menningarmálaráðherra í heimsókn í VMA
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kom í heimsókn í VMA, í gær 14. maí. Ráðherra byrjaði á því að hitta starfsfólk skólans, ávarpaði hópinn og fékk margar spurningar sem aðallega lutu að rekstrarumhverfi skólans. Að fundi loknum fór Lilja um skólann í fylgd nokkurra úr kennara- og stjórnendahópnum. Heimsóknin var á þeim tíma sem fáir nemendur eru í skólanum vegna prófa en Lilja hitti nokkra nemendur sem voru í verklegum prófum. Því miður var tími ráðherra takmarkaður og Lilja náði ekki að skoða nema hluta af deildum skólans. Í lokin afhenti skólameistari Lilju gögn um starfsemi skólans, fréttir af heimasíðunni sem sýna mikið og öflugt starf með nemendum, upplýsingar um verkefnið rjúfum hefðirnar, upplýsingar um námsbrautir og úttekt á tölvubúnaði skólans, sem þarfnast mikillar endurnýjunar.