Metakvöld í Gryfjunni í kvöld
Svokallað Metakvöld verður í Gryfjunni hér í VMA í kvöld, fimmtudag, kl. 20. Um er að ræða sameiginlegt skemmtikvöld nemenda í VMA og MA þar sem farið verður í ýmsar þrautir og þess freistað að fá úr því skorið hvor framhaldsskólinn er betri – í það minnsta í þeim þrautum sem keppt verður í!
Stefán Jón Pétursson, formaður Þórdunu – nemendafélags VMA – segir að slíkt Metakvöld hafi verið haldið reglulega hér á árum áður en sl. tvö ár hafi verið uppihald í þessum árlega dagskrárlið. En nú verði Metakvöldið endurvakið, í góðu samstarfi stjórna nemendafélaga beggja skólanna, og raunar sé ætlunin að hafa þau tvö á þessum vetri, hið fyrra verði í Gryfjunni í kvöld og hið síðara í Kvosinni í MA á vorönn. Á íþróttamáli heitir þetta að spila heima og að heiman!
Sem liður í því að auglýsa Metakvöldið og hvetja nemendur í VMA til þess að mæta vel í kvöld var í löngufrímínútum í gær efnt til óformlegrar rappkeppni í Gryfjunni þar sem stjórnarmenn í nemendafélögum beggja skóla – Þórdunu og Hugins - reyndu með sér. Fjölmargir voru mættir í Gryfjuna og skemmtu sér vel. Engum sögum fer af því hvor skólinn hafði betur! Hins vegar tekur alvaran við í kvöld og er ástæða til þess að hvetja nemendur beggja skóla til þess að fjölmenna í Gryfjuna kl. 20 í kvöld.