Mikið um að vera á kynningardegi VMA á morgun
Mikið verður um að vera á kynningardegi VMA á morgun, fimmtudag. Nemendur úr 10. bekk grunnskóla á Akureyri og 9. og 10. bekkingar úr fjölmörgum skólum á Norðurlandi koma í skólann og kynna sér hvað hann hefur upp á að bjóða, Iðan fræðslusetur kynnir iðn- og tæknigreinar frá ýmsum hliðum og auk þess verða í gangi námskeið á vegum Iðunnar fræðsluseturs. Seinnipart dags, frá kl. 15 til 18, verður síðan opið hús í VMA þar sem öllum sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi skólans er boðið í heimsókn.
Grunnskólaheimsóknirnar hefjast klukkan níu í fyrramálið og standa án uppihalds til klukkan 15:00. Gert er ráð fyrir að heimsókn hvers skóla taki hálfan annan til tvo tíma. Að sögn Ásdísar Birgisdóttur, námsráðgjafa VMA, sem hefur ásamt öðrum komið að skipulagningu kynningardagsins, er gert ráð fyrir að um 500 grunnskólanemendur sæki VMA heim á morgun. Þeir koma úr öllum grunnskólum Akureyrar og utan Akureyrar koma nemendur úr Dalvíkurskóla, Borgarhólsskóla á Húsavik, Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit, Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, Stórutjarnarskóla í Þingeyjarsveit, Hafralækjarskóla í Aðaldal, Litlulaugaskóla í Reykjadal, Grunnskólanum á Þórshöfn, Grenivíkurskóla, Valsárskóla á Svalbarðsströnd, Húnavallaskóla í Húnavatnshreppi, Grunnskólanum á Blönduósi, Höfðaskóla á Skagaströnd, Þelamerkurskóla, Hríseyjarskóla og Hlíðarskóla (þeir tveir síðastnefndu heyra reyndar undir Akureyrarbæ).
Í það heila verða hóparnir um 20 og stendur grunnskólakynningin frá kl. 09:00 í fyrramálið til 15.00. Nemendur fá fyrst stutta kynningu á skólanum og námsframboði hans og svo hafa þeir frjálsan tíma í ca. klst til að skoða skólann og það sem þeim þykir áhugavert. Í miðrými skólans verða margar af námsbrautum skólans og einstaka námsgreinum með bása og kynna námið á lifandi og skemmtilegan hátt auk þess sem Þórduna – skólafélag VMA – kynnir félagslífið í skólanum.
Nemendur og starfsfólk skólans verður sýnilegt í merktum bolum, allir boðnir og búnir að aðstoða nemendur og veita upplýsingar. Grunnskólanemendur fá Vegabréf VMA þar sem verður kort af skólanum og einnig verður stimpilleikur þar sem nemendur fá stimpla í þeim deildum sem þeir heimsækja og geta svo skilað í kassa sem síðan verður dregið úr. Á göngunum vísa nemendur skólans, auðþekkjanlegir í bolum, veginn og veita upplýsingar um námið.
Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær stendur nú yfir „Vika símenntunar í iðnaði á Norðurlandi“ á vegum Iðunnar fræðsluseturs. Í tilefni af þessu er boðið upp á ýmis námskeið og eru nokkur þeirra í húsakynnum VMA. Á öðru námskeiðinu, sem stendur frá kl. 09:00 til 18:00, verður kennt hvernig eigi að búa til app fyrir Android símann eða spjaldtölvuna og á hinu námskeiðinu, sem er aðeins ætlað fólki með fagmenntun í bílgreinum, verður fjallað um CABAS tjónamatskerfið. Þetta námskeið stendur frá kl. 08:00 til 16:00.
Seinnipart dags, að loknum grunnskólakynningunum, verður opið hús í VMA frá kl. 15:00 til 18:00 þar sem allir eru boðnir velkomnir í skólann að kynna sér það fjölbreytta starf sem þar fer fram. Ásdís Birgisdóttir segir að sérstaklega séu foreldrar nýnema í skólanum hvattir til þess að koma og kynna sér starfsemina og það sama gildi um foreldra nemenda í 10. bekk grunnskóla.
„Þetta er viðamesta kynning á starfsemi skólans sem ég hef komið að hér og það er virkilega ánægjulegt hversu margir nemendur skólans koma til með að taka þátt í þessu með okkur og kynna skólann sinn og hvað hann hafi upp á að bjóða. Þetta verður vonandi lifandi og áhugaverð kynning á Verkmenntaskólanum og vil ég hvetja alla sem eiga þess kost að heimsækja okkur á opnu húsi frá þrjú til sex á morgun. Það væri gaman að sjá sem flesta,“ segir Ásdís og bætir við að kynningar Iðunnar fræðsluseturs á hinum ýmsu iðngreinum auki enn á fjölbreytnina á kynningardeginum.
Settur hefur verið upp sérstakur kynningarvefur VMA