Mikil ánægja með samning við FerroZink fyrir nemendur byggingadeildar
Það var hátíð í bæ í byggingadeildinni sl. miðvikudag þegar kynnt var formlega samkomulag FerroZink og VMA um fatnað og öryggisbúnað fyrir nemendur byggingadeildar. Sá pakki sem um ræðir felur í sér öryggishjálm, gleraugu, heyrnahlífar, tvo boli, jakka, smíðabuxur, smíðavesti, öryggisskó og öndunargrímu. Listaverð á þessum heildarpakka er um hundrað þúsund krónur en með ríflegum afslætti FerroZink og niðurgreiðslu VMA sem nemur 19 þúsund krónum á hvern nemanda greiðir hver nemandi kr. 17.952 kr. fyrir framangreindan fatnað og öryggisbúnað.
Af þessu tilefni voru auk nemenda og kennara í byggingadeildinni mættir fulltrúar Ferro Zink, skólameistari og aðstoðarskólameistari VMA og fyrrverandi kennarar við byggingadeild VMA.
Einn af þeim þáttum sem lögð er gríðarleg áhersla á í byggingadeildinni, sem og öðrum deildum VMA, eru öryggismálin. Í byggingadeildinni er nemendum skylt að nota viðeigandi persónuhlífar við vinnu inni á verkstæði, í portinu fyrir utan skólann og heimsóknum nemenda á vinnusvæði í ferðum á vegum skólans.
Í tilefni dagsins var viðstöddum boðið upp á grillaðar pylsur og í samstarfi við Slökkvilið Akureyrar kynnti FerroZink fallvarnabúnað sem nemendur á þriðju önn kynntu sér og fengu að prófa.
Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingargreina í VMA, sagði í ávarpi af þessu tilefni að um sjötíu nemendur væru nú í dagskóla í byggingadeildinni auk nemenda sem væru á samningi og kæmu í skólann eftir áramót. Helgi sagði ríkja mikla ánægju með samstarf skólans við FerroZink á Akureyri. „Það er okkur kennurum og nemendum mikið kappsmál að huga vel að öryggismálum og við viljum vera í fararbroddi í þeim efnum. Þess vegna er það afar mikilvægt að nemendum standi til boða að fá þennan búnað á mjög góðu verði og fyrir það erum við afar þakklát,“ sagði Helgi Valur.
Reynir Eiríksson, framkvæmdastjóri FerroZink, sagði að þetta samstarf við VMA væri fyrirtækinu mikið ánægjuefni. „Það er okkur ánægjuefni að taka þátt í því að auka öryggi ykkar nemenda og þið kynnist því hvernig þið eigið að vera búnir þegar þið farið út á vinnumarkaðinn. Vinnuslysin gera ekki boð á undan sér og það skiptir gríðarlegu máli að vera alltaf rétt búin í vinnunni. Við teljum okkur hafa góðar vörur að bjóða og við erum mjög ánægð með þetta samstarf við Verkmenntaskólann. Ég er nokkuð viss um að skólinn er til fyrirmyndar á landsvísu í þessum efnum. Við horfum til þess að eiga áfram gott samstarf við VMA og munum leggja okkur fram um að styrkja ykkur nemendur og skólann eins og okkur er unnt með vörum og öðru slíku. Það höfum við verið að gera undanfarin þrjú ár og það er afar ánægjulegt hvernig til hefur tekist,“ sagði Reynir.
Benedikt Barðason, skólameistari VMA, sagði skólanum mjög mikilvægt að eiga gott samstarf við atvinnulífið og í þeim efnum ætti hann einstaklega farsælt starf við FerroZink sem birtist í þessum samningi um sölu á fatnaði og öryggisbúnaði fyrir nemendur byggingadeildar á mjög hagstæðum kjörum og það sama hefði fyrirtækið gert gagnvart nemendum á málmiðnaðarbraut VMA fyrr á önninni. „Samstarf okkar við FerroZink hefur verið til algjörrar fyrirmyndar,“ sagði Bendikt og gat þess að öryggismálin væri aldrei tekin nægilega föstum tökum. Fyrir stuttu hefði hann verið á fundi stjórnenda starfsnámsskóla og þar hefði komið fram að í janúar nk. verði eina vika helguð öryggismálum í öllum þessum skólum. „Ef þið ætlið að starfa lengi í þessari starfsgrein þurfið þið að fara vel með ykkur og þá eru öryggismál og vinnuvernd lykilatriði,“ sagði Benedikt og beindi orðum sínum til nemenda í byggingadeild.