Mikil gosmengun á Akureyri í dag - fólk haldi sig sem mest innandyra!
Í morgun hefur verið umtalsverð gosmengun á Akureyri vegna jarðeldanna í Holuhrauni og var styrkur brennisteinsdíoxíðs samkvæmt mæli Umhverfisstofnunar mældur 4.000 míkrógrömm á rúmmetra. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er mengun í þessum mæli líkleg til að valda einkennum í öndunarfærum hjá öllum, sérstaklega þeim sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma. Fólki er ráðlagt að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu.
Almannavarnir sendu í morgun SMS-skilaboð í farsíma hér á Akureyri þar sem vakin var athygli á mikilli brennisteinsmengun. Hvatt er til þess að fólk haldi sig að mestu innandyra á meðan þetta ástand varir og í ljósi þessara tilmæla Almannavarna er því beint til nemenda og starfsfólks VMA að halda sig sem mest innandyra á skólatíma í dag.