Fara í efni

Mikill fróðleikur á lokaverkefnadegi

Nokkrir af þeim nemendum sem kynntu verkefni sín.
Nokkrir af þeim nemendum sem kynntu verkefni sín.

Þá fer að líða að lokum vorannar 2019. Í dag, á morgun og nk. fimmtudag eru þrír síðustu kennsludagar vorannarinnar og taka þeir óneitanlega mið af því að kennslu er að ljúka og við taka annarpróf í næstu viku.

Í gær var svokallaður lokaverkefnadagur þar sem nemendur í nokkrum deildum kynntu lokaverkefni sín á önninni. Í flestum tilfellum vinna nemendur lokaritgerðir og þeir kynntu síðan stuttar samantektir úr þeim. Þessar kynningar hófust klukkan 9 í gærmorgun og þeim var ekki lokið fyrr á fjórða tímanum í gær. Að vonum var efni kynninganna afar fjölbreytt og tók eðlilega mið af því á hvaða námsbrautum nemendur eru. Um var að ræða kynningar sem tengdust íþrótta- og lýðheilsumálum, sagnfræði, heilbrigðisvísindum, félagsvísindum, viðskiptum, náttúruvernd og raunvísindum. Síðdegis í gær voru síðan útskriftarnemar í vélstjórn með kynningu á sínum lokaverkefnum og verður síðar í vikunni sagt nánar frá þeim verkefnum hér á vefsíðu skólans.

Eins og vera ber bar margt áhugavert á góma í kynningunum í gær. Þetta voru verkefnin:

Lykillinn að velgengni fótboltaliða    
Birkir Eydal

Saga Manchester United    
Árni Már Guðfinnsson

Manchester United undir stjórn Sir Alex Ferguson    
Hilmar Örn Gunnarsson og Viktor Snær Guðlaugsson

Jafnrétti í fótbolta    
Sara Gná Valdemarsdóttir

Krossbandaslit     
Sævar Þór Fylkisson

Gengi Chelsea frá 2013 og til dagsins í dag    
Skarphéðinn Hinrik Óliversson

Ungir atvinnumenn     
Frosti Brynjólfsson og Jason Orri Geirsson

Gengi Liverpool frá 2012 og til dagsins í dag    
Patrekur Óli Gústafsson

Ég sparka eins og stelpa    
Magðalena Ólafsdóttir og Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir

Hvað þarf til þess að skara fram úr í knattspyrnu á Íslandi?     
Ómar Már Ólafsson

Warhammer 40K    
Ólafur Jónsson

Hvernig þrælahald hafði áhrif á tónlistarsöguna    
Guðný Jónsdóttir

Hringleikahúsið í Róm    
Stefán Árni Stefánsson

Leikjaforritun og hönnun    
Halldór Heiðberg Stefánsson

Heródotus frá Halikarnassus    
Arney Björnsdóttir

Gítarinn     
Alexander Reynir Tryggvason

D-Day - Innrásin í Normandí    
Bjarki Sigurðsson og Hákon Orri Steingrímsson

Grímsey fyrr og nú    
Heiðar Andri Gunnarsson

Hjartabilun   
Karen Eir Valdemarsdóttir

Áhrif núvitundar á minnisgeymd    
Harpa Lísa Þorvaldsdóttir, Karolina Domanska og Þórunn Ósk Jóhannesdóttir

Snjalltækjanotkun ungmenna    
Dagbjört Jónsdóttir og Hrund Nilima Birgisdóttir

Fjölkerfameðferð MST    
Ottó Daníel Tulinius

Að vera eða vera ekki geðveikur: B-klasa persónuleikarasakanir    
Guðrún Katrín Gunnarsdóttir

Félagskvíðaröskun meðal einstaklinga með einhverfu     
Helgi Brynjólfsson

Beinhimnubólga    
Anna Marý Aðalsteinsdóttir og Júlía Sif Höskuldsdóttir

Svefn og tengsl við íþróttir og atvinnu    
Jakob Ernfeld og Einar Kristján Grant Hólmarsson

Geðhvörf: Er hægt að lifa góðu lífi með geðhvarfasýki    
Eva Hrönn Arnardóttir, Karen Alfa Rut Kolbeinsdóttir og Tinna Karen Arnardóttir

Þunglyndi aldraðra með heilabilun    
Sevinj Aliyeva

Afbrotafræði og viðfangsefni hennar   
Indíra Jónasdóttir og Hilmir Gauti Garðarsson

Hver er skilningur ungra kvenna (17-24 ára) á neysluvenjum sínum og umhverfislegum áhrifum skyndi-tísku (e. fast-fashion)    
Berglind Hauksdóttir

Saga og fjármál NBA deildarinnar    
Sveinbjörn Hjalti Sigurðsson

Kauphegðun ungmenna á internetinu    
Kristín Ragna Tóbíasdóttir

Plast - hvaða ábyrgð ber ég?    
Tómas Bergsteinn Arnarson

Sítrónurafhlaða 
Egill Vagn Sigurðarson, Róslín Erla Tómasdóttir og Úlfur Saraphat Þórarinsson

Polymerase Chain Reaction    
Silja Hrönn Hlynsdóttir

Dýr í útrýmingarhættu    
Emilía Rós Elíasdóttir

Klámvæðing í tónlist og tónlistarmyndböndum
Þorsteinn Ægir Óttarsson

 

Í lokin í stuttu máli um fimm af kynningunum:

Krossbandaslit
Sævar Þór Fylkisson á íþróttabraut beindi í lokaverkefni sínu sjónum að krossbandaslitum en sjálfur spilar hann knattspyrnu með KF – Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar. Sævar gat þess að krossbönd hafi þann tilgang að tryggja stöðugleika hnésins og sé talað um fremra og aftara krossband. Algengara sé að fremra krossbandið slitni og það geti gerst undir ýmsum kringumstæðum en algengara sé að það slitni án snertingar, t.d. sé nokkuð algengt að íþróttamenn, t.d. knattspyrnumenn, snúi upp á fótlegginn, m.a. með því að festa takka á takkaskónum í grasi. Sævar Þór sagði að krossbandsslit væru mun algengari hjá stúlkum en piltum, á aldrinum 15-25 ára. Átta til níu af hverjum tíu krossbandaslitum verða á fremra krossbandi. Sævar Þór sagði að líkamlega og andlega gætu krossbandaslit tekið verulega á fyrir viðkomandi. Hjá íþróttafólki væru þess dæmi að ferill íþróttamanns væri úr sögunni með krossbandaslitum en með markvissri styrktarþjálfun og þolinmæði ætti fólk að geta náð fullum bata. Sævar Þór undirstrikaði að bataferlið krefðist mikillar þolinmæði og aga og meiðslin væru kostnaðarsöm.

Ungir atvinnumenn í íþróttum
Íþróttabrautarstrákarnir Frosti Brynjólfsson og Jason Orri Geirsson fjölluðu í fyrirlestri sínum um unga atvinnumenn í íþróttum. Frosti er knattspyrnumaður, hefur spilað með bæði KA og Magna á Grenivík, en Jason Orri hefur spilað handbolta með Akureyri. Þeir könnuðu hvernig ungum og efnilegum íþróttamönnum frá Íslandi hafi gengið að fóta sig í atvinnumennsku. Niðurstaða þeirra var sú að þeim gengi það jafn misjafnlega vel og þeir væru margir. Sálrænir þættir skiptu máli í þessu sambandi og einnig líffræðilegir. Sumir væru tilbúnir til þess að taka skrefið ungir að árum en aðrir alls ekki. Til þess að standast álagið væri nauðsynlegt að viðkomandi hefðu gott bakland og stuðning. Freistingarnar væru margar og þær þyrfti að standast og æfingaálagið og pressan gæti verið mikil, fyrir marga unga íþróttamenn gæti sá þröskuldur verið of hár til þess að komast yfir.

Ójafnrétti í íþróttum
Magðalena Ólafsdóttir og Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir á íþróttabraut, sem spila fótbolta með Hömrunum, sem er hliðarfélag meistaraflokks kvennaliðs Þórs/KA í knattspyrnu, fjölluðu um jafnrétti í íþróttum og niðurstaða þeirra er að þar sé pottur brotinn og hér á landi sé langt í land þegar kemur að jafnrétti kynjanna í íþróttum. Þær nefndu í þessum efnum að leikreglur í knattspyrnu væru skrifaðar fyrir karlmenn, fjölmiðlar væru ekki eins vakandi fyrir umfjöllun um kvennaíþróttir og karlaíþróttir og launamunur væri enn mjög sláandi. Þær vitnuðu í því sambandi til launamunar leikmanna karla- og kvennalandsliða Bandaríkjanna í knattspyrnu. Laun fyrir sigurleiki væri margföld hjá körlunum í samanburði við konurnar, meira að segja séu greiðslur til landsliðskvennanna fyrir sigurleiki lægri en greiðslur til karlanna fyrir tapleiki. Það segi sína sögu. Og þær bættu við að í liði þeirra Hamranna sé leikmönnum gert að borga 90 þúsund krónur í æfingagjöld og þær standi sjálfar straum að kaupum á æfingafatnaði. Og það sama gildi um allar æfingaferðir. Í karlaliðum sé almennt allt annað uppi á teningnum.

Snjalltækjanotkun
Dagbjört Jónsdóttir og Hrund Nilima Birgisdóttir fjölluðu í kynningu sinni um snjalltækjanotkun ungmenna sem þær sögðu hafa aukist gríðarlega á síðustu árum. Til marks um aukna notkun snjalltækja, síma og spjaldtölva, voru seldar um allan heim 13 milljónir síma árið 2008 en 211 milljónir árið 2016. Þær sögðu bæði jákvæða og neikvæða hlið á símanotkun. Hún gæti leitt til einangrunar, dvínandi samskipta við annað fólk og þá væri svokallað rafrænt einelti vaxandi vandamál. Enskukunnátta hefði aukist hjá börnum og unglingum en að sama skapi hafi kunnátta í móðurmálinu dvínað.
Dagbjört og Hrund tóku viðtöl við kennara í Síðuskóla á Akureyri og kom fram hjá þeim að snjallsímarnir hafi þau neikvæðu áhrif að minnka einbeitingu nemenda, hugur þeirra sé oft við tækin og óttinn við að missa af einhverju. Lestur á bókum og blöðum hafi minnkað en hins vegar væri jákvætt að auðveldara væri að nálgast upplýsingar í gegnum netið. Á yngsta stiginu fá nemendur í Síðuskóla ekki að vera með síma í tímum en þess í stað fá þeir afnot af af ipödum í skólanum. Enskukunnátta elstu nemenda Síðuskóla segja kennarar að sé almennt góð en hins vegar sé einn af neikvæðu þáttunum áberandi aukin kvíðni og óöryggi. Almennt sögðu þær Dagbjört og Hrund að snjalltækjanotkun hafi aukist gríðarlega og hún hafi áhrif á alla í fjölskyldunni. Mikilvægt sé að takmarka símanotkun á degi hverjum og þær nefndu að það væri nú svo að fullorðna fólkið væri ekkert betra í þessum efnum en þeir sem yngri eru.

Beinhimnubólga    
Anna Marý Aðalsteinsdóttir og Júlía Sif Höskuldsdóttir, sem báðar ljúka stúdentsprófi af íþrótta- og lýðheilsubraut síðar í þessum mánuði, fjölluðu í lokaverkefni sínu um beinhimnubólgu íþróttafólks. Beinhimnubólga getur sannarlega verið hrein andstyggð og oft getur verið erfitt að kveða hana niður. Anna Marý og Júlía Sif sögðu að áhættuþættir beinhimnubólgu væru m.a. inn- og útskeifa eða flatur fótur, skekkja í mjöðmum, ofþyngd, hart eða ójafnt undirlag og óheppilegur skóbúnaður. Fram kom hjá þeim að meiri líkur væru á því að konur fengju beinhimnubólgu en karlar. Þessi kvilli er nokkuð algengur hjá skokkurum sem hlaupa á hörðu undirlagi, t.d. langar vegalengdir á malbiki eða gangstéttarhellum, og eru mögulega í hlaupaskóm sem passa þeim ekki. Þá getur beinhimnubólgan látið á sér kræla á grimmilega hátt í fótleggjum. Í svörum sem Anna Marý og Júlía Sif fengu í verkefni sínu frá nemendum og starfsfólki VMA kom fram að flestir þeirra sem svöruðu könnun þeirra og höfðu fengið beinhimnubólgu tengdu hana við ofþjálfun eða skekkju í fótum.  Almennt var það niðurstaða höfunda verkefnisins að íþróttafólk sem hlaupi á hörðu undirlagi eða sé með skekkju í líkamanum sé líklegra en aðrir til þess að fá beinhimnubólgu.