Mjölnir kominn út
Í dag kemur út 1. tbl. Mjölnis, skólablaðs VMA, skólaárið 2015-2016. Að blaðinu hafa unnið að stærstum hluta þrjár harðduglegar stúlkur í skólanum; ritstjórinn Þórdís Alda Ólafsdóttir, sem er úr Kelduhverfi og er nemandi á viðskipta- og hagfræðibraut, Akureyringurinn á félags- og hugvísindabraut, Margrét Benediktsdóttir, aðstoðarritstjóri, og Eskfirðingurinn Snædís Birna Jósepsdóttir, sem hannaði og setti upp blaðið. Snædís er nemandi í grunndeild byggingagreina og hyggst í framhaldinu fara í húsgagnasmíði. Mjölni, sem er prentaður í 800 eintökum, verður dreift án endurgjalds til nemenda skólans núna í morgunsárið og ekki nóg með það, heldur verður á boðstólum morgunhressing á meðan birgðir endast.
Skólablaðið Mjölnir lá til fjölda ára í dvala þar til dugmiklir nemendur tóku sig til síðasta vetur og endurvöktu það. Og þær stöllur halda nú áfram þar sem frá var horfið. Ritnefndin var raunar töluvert mikið stærri í byrjun en af ýmsum ástæðum hefur orðið „mannfall“ í ritnefndinni, þegar upp var staðið voru aðeins þær Þórdís Alda og Margrét eftir og þær fengu Snædísi Birnu til liðs við sig til þess að setja upp blaðið. Snædís segir að hún hafi ekki gert slíkt áður en sé sjálfmenntuð í notkun umbrotsforrita sem nýttist henni vel í þessari vinnu. Og þær stöllur Þórdís Alda og Margrét skrifuðu blaðið að stærstum hluta og ekki nóg með það, þær söfnuðu einnig auglýsingum. Þær hafa því lyft grettistaki í vinnslu blaðsins og fallast á að þetta hafi verið mikil vinna. En þær eru ánægðar með afraksturinn og segja að blaðið, sem er 52 bls. í A4 broti, skili eilitlum hagnaði, eins og að var stefnt.
En þær ritnefndarkonur eru ekki hættar. Þær eru ákveðnar í því að koma út öðru tölublaði á vorönn og það verði töluvert stærra og efnismeira. Við það verði miðað að það blað skili einnig hagnaði og þannig verði unnt að fjárfesta í búnaði til þess að brjóta blaðið um. En þær vilja endilega fjölga í ritstjórn og því er auglýst eftir áhugasömu fólki, hægt er að hafa samband við þær á mjolnir@thorduna.is
En hvað er í þessu fyrsta tölublaði Mjölnis á þessu skólaári? Fyrst um forsíðuna. Þar má sjá útfærslu Sindra Páls Stefánssonar á þrumuguðinum Þór og að sjálfsögðu er hann með hamar sinn, Mjölni. Skólameistarinn, Hjalti Jón, hefur verið „fótosjoppaður“ í gervi Þórs, sem að sögn þeirra ritstjórnarstúlkna er táknrænt, því hann sé brátt á förum frá skólanum. Hjalti Jón er reyndar í viðtali í blaðinu. Sömuleiðis sýnir Benedikt áfangastjóri á sér nýja hlið með kokkasvuntuna og Úlfur Logason, myndlistarnemi, svarar nokkrum laufléttum spurningum. Og þetta er bara lítið brot af efni blaðsins.
Á meðfylgjandi mynd eru þær ritnefndarkonur stoltar og ánægðar með blaðið sitt. Frá vinstri Margrét Benediktsdóttir, Snædís Birna Jósepsdóttir og Þórdís Alda Ólafsdóttir, sem heldur á hinum eina og sanna Mjölni, hamri Þórs.