Mkilvægt að nýta atkvæðisréttinn
Það skiptir miklu máli að fara á kjörstað og nýta atkvæði sitt í lýðræðislegum kosningum. Þetta eru skilaboð nemendanna Sindra Snæs Konráðssonar og Jöru Sólar Ingimarsdóttur í upphafi svokallaðrar lýðræðisviku í framhaldsskólum, þar sem ýmsum hliðum á þátttöku ungs fólks í lýðræðissamfélagi verður velt upp. Hápunktur lýðræðisvikunnar verður nk. fimmtudag þegar svokallaðar skuggakosningar fara fram en þar gefst framhaldsskólanemum, þar á meðal nemendum í VMA, kostur á að greiða atkvæði eins og um væri að ræða eiginlegar alþingiskosningar.
Ánægjulegt var að sjá hversu þéttskipuð Gryfjan var sl. fimmtudag þegar þar var haldinn framboðsfundur með fulltrúum þeirra níu framboða í Norðausturkjördæmi sem þá höfðu kynnt framboð sín. Skipulag þeirra sem að fundinum stóðu, bæði nemenda og kennara, var til mikillar fyrirmyndar og lýstu frambjóðendur ánægju með hvernig til hefði tekist. Og einnig var ánægjulegt að sjá hversu margir nemendur sýndu fundinum áhuga og voru ófeimnir að leggja fyrirspurnir fyrir frambjóðendur.
Sindri Snær Konráðsson og Jara Sól Ingimarsdóttir voru í hópi þeirra nemenda sem fylgdust vel með umræðum á fundinum. Sindri Snær segir að slíkir fundir skipti máli fyrir þá nemendur sem eru óákveðnir. Út frá boðskap frambjóðenda sé unnt að þrengja hringinn þar til endanleg ákvörðun í kjörklefanum liggi fyrir. Sindri Snær segist eindregið vera þeirrar skoðunar að það skipti miklu máli að nýta sinn atkvæðisrétt, enda sé hann einn helgasti réttur hvers og eins einstaklings í samfélaginu. Frá blautu barnsbeini hafi hann farið með móður sinni á kosningaskrifstofur framboða til þess að fá upplýsingar beint frá frambjóðendum og kynnast þeim um leið. Þetta uppeldi hafi síast inn þegar hann sjálfur hafi náð aldri til þess að kjósa og því finnist honum mikilvægt að ígrunda það vel hvaða framboð standi næst hans lífsskoðunum áður en komi að því að setja x á kjörseðilinn. Í þessu sambandi segir Sindri Snær einnig að það skipti miklu máli hvernig frambjóðendur komi fyrir. Hann segist núna kjósa í fyrsta skipti til Alþingis en áður hafi hann kosið í sveitarstjórnarkosningum og síðan aftur á liðnu sumri í forsetakosningunum. Sindri Snær hvetur nemendur til þess að taka þátt í skuggakosningunum nk. fimmtudag og sömuleiðis vill hann hvetja þá nemendur sem hafa aldur til að nýta sinn atkvæðisrétt í alþingiskosningunum 29. október nk.
Jara Sól Ingimarsdóttir hefur ekki aldur til þess að kjósa í þingkosningunum í lok þessa mánaðar en engu að síður fygldist hún vel með umræðum á framboðsfundinum sl. fimmtudag og sagði að eftir þann fund hafi hún getað þrengt hringinn áður en hún fer í kjörklefann nk. fimmtudag til að kjósa í skuggakosningunum, en þar hafa rétt til að kjósa nemendur frá 16 ára aldri. Jara Sól segir að það sem valdi henni oft erfiðleikum við að skilja hina pólitísku umræðu sé nokkuð framandi orðfæri frambjóðenda, sumir þeirra tali mál sem yngra fólk eigi erfitt með að skilja. Undir það tekur Sindri Snær.
Bæði Sindri Snær og Jara Sól eru sammála um að það sem brenni hvað mest á ungu fólki í dag séu húsnæðismálin. Staðreyndin sé sú að þó svo að ungt fólk vilji gjarnan hleypa heimdraganum, eins og það er kallað, þ.e.a.s. að flytja úr foreldrahúsum, sé það fjárhagslega afar erfitt. Bæði eigi þetta við um leigumarkaðinn og kaup á fyrstu íbúð. Telja þau að stjórnmálamenn þurfi að leggja mikla áherslu á að finna lausn á þessum vanda til þess að gera ungu fólki kleift að standa á eigin fótum.