Móðir jörð og sjálfbærni í þemaviku
Í dag lýkur þemaviku í VMA þar sem áherslan hefur verið á jörðina og sjálfbærni og ýmsa þætti sem henni tengjast, t.d. endurvinnslu, umhverfisvitund, flokkun sorps og almennt umgengni um náttúruna. Kennarar og nemendur hafa nálgast þema vikunnar út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Ýmis áhugaverð verkefni hafa við unnin í vikunni sem falla undir þema vikunnar. Á listnáms- og hönnunarbraut voru til dæmis endurhannaðar og -saumaðar flíkur sem höfðu verið fengnar gegn vægu gjaldi í fataverslun Rauða krossins. Það þarf ekki oft mikið til þess að endurskapa föt og gera þau að sínum. Nemendur hönnuðu einnig ýmis höfuðföt og grímur og þeir saumuðu innkaupapoka úr allskyns efnum. Í enskuáfanga gerðu nemendur mörg áhugaverð veggspjöld þar sem umhverfismálin í víðum skilningi voru í öndvegi.
Sem liður í þemavikunni var Hrönn Brynjarsdóttir, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri Norðurorku, með áhugaverða fyrirlestra í VMA þar sem hún fór yfir ýmislegt er varðar kalt vatn og frárennsli. Fram kom hjá henni að bróðurpartur kalda vatnsins sem Akureyringar nota kemur úr lindum í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar, annars vegar svokölluðum Hesjavallalindum og hins vegar Sellandslindum. Einnig fá Akureyringar vatn úr vatnslindum á Vöglum á Þelamörk.
Hrönn sagði að almennt gætu Íslendingar verið montnir af kalda vatninu sínu enda væri það almennt mjög gott. Hins vegar væri kalda vatnið auðlind sem þyrfti að ganga betur um. Til marks um það notuðu Íslendingar mun meira vatn en margar aðrar þjóðir, þannig væri vatnsnotkun hvers Íslendings sem næst helmingi meira en meðal Danans. Það gæfi til kynna að Íslendingar sóuðu allt of miklu af vatni. Þessu mætti breyta með því að láta ekki vatn renna óhóflega mikið í vaskinn, eins og fólki hætti til að gera, til dæmis þegar verið væri að þvo leirtau eða bursta tennur.
Kaldavatnsnotkunin er mest yfir sumarið og þá að sama skapi er sjálfrennslið úr vatnslindunum í Hlíðarfjalli mest. Á bilinu 70-80% af köldu vatni sem Akureyringar nota koma úr Hlíðarfjalli og eru lindirnar á svokölluðu vatnsverndarsvæði, sem þýðir að þar eru strangar takmarkanir á umferð farartækja sem knúin eru með jarðefnaeldsneyti. Það sem skiptir öllu máli er að fyrirbyggja mengunarslys. Sú staðreynd að á árabilinu 2007-2017 voru 157 umferðarslys á þjóðveginum í næsta nágrenni við vatnsbólin á Þelamörk dregur úr öryggi með þau. Það geta vitaskuld orðið mengunarslys með ófyrirséðum afleiðingum ef eldsneyti streymir frá ökutækjum út í náttúruna. Þess vegna sagði Hrönn að horft væri til þess að nýta kaldavatnslindirnar úr Vaðlaheiðargöngum á næstu árum í stað lindanna á Þelamörk, í því skyni að tryggja betur öryggi neysluvatnsins. Norðurorka vaktar kaldavatnslindirnar og ákveðið ferli fer í gang ef eitthvað bregður út af.
„Lengi tekur hafið við“, var oft haft á orði hér í gamla daga og ótrúlegustu hlutum var sturtað niður í frárennslislagnirnar. En hér þarf að gæta varúðar í nafni náttúrunnar. Í fyrirlestri sínum með nemendum í byggingadeild í gær ræddi Hrönn einnig um frárennslismál og nefndi nokkur atriði sem vert væri að hafa í huga. Hún nefndi til dæmis og sýndi myndband því til sönnunar að blautklútar mættu alls ekki fara í frárennslið, þeir gætu einfaldlega stíflað kerfið. Sama megi segja um matarfitu. Hún safnist fyrir í fráveitulögnunum og geti á endanum stíflað þær illa. Aðrir hlutir sem Hrönn nefndi sem ekki eiga að fara í klósettin eru t.d. matarafgangar, dömubindi, tannþráður og hár sem safnast oft í niðurföllum í sturtunni.
Í áhugaverðu erindi sínu nefndi Hrönn aðeins nokkur atriði úr daglegu lífi fólks sem þarf sannarlega að hafa í huga. Innlegg hennar var afar þarft í þemaviku um móður jörð og umhverfismál.