Molesky með síðasta þriðjudagsfyrirlestur vetrarins
Í síðasta þriðjudagsfyrirlestri vetrarins í Listasafninu á Akureyri, sem verður í dag, þriðjudaginn 23. mars kl. 17, ræðir myndlistarmaðurinn David Molesky um vegferð sína með endurvakningu hins fígúratíva málverks. Yfirskrift fyrirlesturins er The New Figurative. Í fyrirlestrinum rekur Molesky það sem hann telur ástæður þess að hið fígúratíva málverk hvarf um tíma en kom síðan aftur fram á sjónarsviðið. Einnig ræðir hann um listmarkaðinn í New York sem hann er vel kunnugur sem listamaður. Molesky ræðir einnig um hugrenningar sínar um ný viðmið í listupplifunum, tíðarandann eða tímaskekkjur í listum og hvernig þær hafa áhrif á hans eigin listsköpun.
David Molesky er olíumálari og rithöfundur frá Brooklyn í New York. Nýverið dvaldi hann í listamannavinnustofu á vegum Listasafnsins á Akureyri og opnar sýningar á verkum sínum í Deiglunni og Kaktus. Verk hans eru í eigu safna í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn í dag, sem verður á ensku.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir í vetur eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri.
Sem fyrr segir er fyrirlestur Molesky í dag sá síðasti á þessum vetri. Þriðjudagsfyrirlestrarnir hefjast aftur í október nk.