Móttaka nýrra nemenda - upphaf skólastarfs
Í lok vorannar 2021 áttum við von á því að það yrðu engar takmarkanir á skólastarfi vegna Covid-19 nú í haust. Raunin er nú samt sú að upphaf skólastarfs verður í skugga veirufaraldursins og við þurfum að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum. Hér í VMA er unnið að því að skipuleggja skólastarf með sem eðlilegustum hætti en líka út frá þeirri staðreynd að sóttvarnareglur og staðan á faraldrinum á hverjum tíma, munu hafa mikil áhrif á nám og kennslu í allan vetur. Aðstæður eru breyttar frá í vor og bólusetning starfsfólks og nemenda er þar stærsti þátturinn sem gerir skólastarf töluvert auðveldara á meðan takmarkanir verða ekki meiri en þær eru núna.
Við viljum fara varlega af stað og gefum okkur tíma til að máta okkur í nýjar aðstæður. Við höfum gert lítilsháttar breytingar á móttöku nýnema þriðjudaginn 17. ágúst en annað skipulag er óbreytt frá fyrri tilkynningum. Allt nám fer fram á staðnum en nánast hver einasti áfangi skólans hefur mótast af kennslu síðustu þriggja anna og flestir kennarar nýta sér upplýsingatæknina í kennslu í meira mæli en áður. Það er því mikilvægt að nemendur mæti í kennslustundir með fartölvu. Komi til þess að nemendur og/eða kennarar þurfi að fara í sóttkví eða einangrun þá vinnum við með það eftir aðstæðum. Nemendur og kennarar í sóttkví geta sinnt námi og kennslu og skólinn mun aðlaga sig að þeim aðstæðum sem skapast á hverjum tíma.
Skólabyrjun hefur verið breytt með eftirfarandi hætti:
Nýnemar (fæddir 2005 eða 2006) mæta þriðjudaginn 17. ágúst samkvæmt eftirfarandi plani:
Klukkan 13:00 mæta nýnemar á eftirtöldum brautum í Gryfjuna (gengið inn að norðan eða austan).
-
Brautabrú
-
Listnáms- og hönnunarbraut
-
Íþrótta- og lýðheilsubraut
-
Grunndeild matvælagreina
Nýnemar á Starfsbraut og sérnámsbraut mæta í D-álmu kl. 13:00 (gengið inn að vestan). Þar taka umsjónarkennarar á móti nemendum.
Klukkan 14:00 mæta nýnemar á eftirtöldum brautum í Gryfjuna (gengið inn að norðan eða austan).
-
Félags- og hugvísindabraut
-
Viðskipta- og hagfræðibraut
-
Sjúkraliðabraut
-
Grunndeild rafiðna
-
Grunndeild málmiðna
-
Grunndeild byggingagreina
-
Náttúruvísindabraut
Foreldrar/forráðamenn (einn með hverjum nemanda) mega koma með börnum sínum í Gryfjuna á meðan nemendur eru þar en eftir að nemendur hafa verið kallaðir í stofu til umsjónarkennara þá verða foreldrar eftir og verða að yfirgefa skólahúsnæðið. Minnum á grímuskyldu og að fólk mæti með grímu.
Minnum á að heimasíðan er aðal upplýsingaveita skólans og þar birtast upplýsingar ef eitthvað breytist. Fylgist með á Facabook síðu skólans því þar deilum við fréttum af heimasíðunni.
Eldri nemendur (fæddir 2004 eða fyrr) sem hafa ekki áður verið í VMA eða eru að koma til baka eftir hlé eru boðaðir í skólann þriðjudaginn 17. ágúst kl. 11 og mæta í M01, gengið inn að norðan eða vestan. Náms- og starfsráðgjafar munu fara yfir ýmislegt varðandi námið og skipulag skólastarfs.
Nemendur sem búa á heimavist er bent á upplýsingar á heimasíðu heimavistar varðandi móttöku nemenda þar.
Miðvikudaginn 18. ágúst hefst kennsla samkvæmt stundatöflu.
Foreldrafundur verður haldinn í gegnum fjarfund og fá foreldrar upplýsingar síðar og tengil á fundinn. Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 17. ágúst kl. 16.30 eins og áður hafði verið tilkynnt.
Sóttvarnir
Grímuskylda er í almennum rýmum skólans s.s. á göngum og í Gryfju. Nemendur og kennarar geta tekið niður grímuna þegar þeir eru sestir niður í kennslustund en við mælum með því að fólk noti grímu alltaf þegar ekki er hægt að tryggja 1 meters fjarlægð á milli einstaklinga.
Nemendur eiga alls ekki að mæta í skólann ef þeir eru með kvef eða önnur Covid-19 einkenni. Ef nemendur finna fyrir einkennum þá eiga þeir að panta tíma í sýnatöku og ekki mæta í skólann fyrr en eftir að niðurstaða er komin.
Nemendur sem hafa nýlega verið erlendis eru hvattir til að fara í sýnatöku áður en þeir mæta í skólann.
Við mælum eindregið með því að nemendur noti smitrakningarappið.
Allar upplýsingar varðandi Covid eru á covid.is og þar eru upplýsingar á mörgum tungumálum.
Þetta ástand mun reyna á okkur öll og við þurfum að lifa með veirunni og þeim tilmælum og fyrirmælum sem koma frá sóttvarnaryfirvöldum á hverjum tíma. Við þurfum að vera tilbúin að breyta um takt ef reglurnar breytast en að leiðarljósi höfum við velferð og menntun nemenda eins og ávallt. Í stefnu skólans kemur fram að nemendur séu hornsteinn skólans. Það að þeir þroskist, öðlist sjálfstraust, líði vel, tilheyri hópnum og tileinki sér ákveðna leikni, þekkingu og hæfni. Þessum gildum munum við sem fyrr halda á lofti ásamt því að bjóða upp á öruggt náms- og starfsumhverfi.
Við verðum að sýna samstöðu, þolinmæði og seiglu til að takast á við breytt skólastarf. Við getum þetta saman.
Velkomin í VMA á nýju skólaári og gangi okkur vel í vetur.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA