Fara í efni

Motul gefur námsbraut í bifvélavirkjun þvottakar

Þetta er nýja Motul þvottakarið.
Þetta er nýja Motul þvottakarið.

Í vikunni færðu Birkir Sigurðsson og Jón Kristinn Sigurðsson, fyrir hönd Motul á Íslandi, námsbraut í bifvélvirkjun í VMA þvottakar að gjöf. Í karinu eru þvegnir vélarhlutar með lífrænni sápu sem er haldið í um 30°C hita. Einnig er í karinu dælubúnaður með þvottabursta. Þessar myndir voru teknar þegar gjöfin var afhent.

Þessi nýja tegund af þar til gerðu þvottakari, þar sem vistvænn þvottur er í öndvegi, kemur í stað eldri útgáfu þar sem notast var við olíuhreinsi. Sem þýðir að lyktin er á bak og burt og loftgæðin því allt önnur og betri. Nýja þvottakarinu hefur verið fundinn staður í rými bifvélavirkjunar í VMA.

Motul er gamalgróið vörumerki í olíum hverskonar og hreinsiefnum. Þessar vörur eru í boði út um allan heim, þar á meðal Íslandi. Höfuðstöðvar Motul eru hér á Akureyri en fyrir tveimur árum var opnað útibú á Reyðarfirði. Vöruúrval Motul er breitt, í það heila er það 350-400 vörunúmer.

Ásgeir V. Bragason, brautarstjóri í bifvélavirkjun, vill koma á framfæri kærum þökkum til eigenda og starfsmanna Motul á Íslandi fyrir þessa góðu gjöf til námsbrautar í bifvélavirkjun sem hann segir að muni nýtast afar vel.