Músíkalskur vélstjórnarnemi
Hjörleifur Helgi Sveinbjarnarson er músíkalskur vélstjórnarnemi á nítjánda ári sem grípur í harmonikuna þegar færi gefst. Hér er Hjörleifur að spila fyrir skólafélaga sína Síldarvalsinn eftir Steingrím Sigfússon við ljóð sveitunga síns, Haraldar heitins Zophoníassonar frá Jaðri á Dalvík.
Hjörleifur Helgi er sem sagt Dalvíkingur. Hann kom í VMA að loknum 10. bekk grunnskóla en var ekki á þeim tíma alveg viss hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór. Skráði sig í grunndeild málmiðnaðar og lauk henni og ákvað síðan í framhaldinu að fara í vélstjórnarnám, er nú á þriðja ári og segist vera mjög sáttur við námið.
En til hliðar við vélstjórnarnámið er Hjörleifur að læra á harmoniku og hefur raunar gert það í mörg ár á Dalvík. Hann segir vissulega ekki algengt að ungt fólk nú til dags læri á harmoniku en að sínu mati sé hún afar heillandi hljóðfæri – í raun heil hljómsveit samankomin í einu hljóðfæri. Þrátt fyrir að vera önnum kafinn í vélstjórnarnáminu hefur hann ekki lagt harmonikunámið alveg á hilluna. Hann býr í heimahögunum á Dalvík og fer á milli daglega. Einn tíma í viku hittir hann kennarann sinn í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga á Dalvík, Ave Köru Sillaots, og til viðbótar æfir hann sig markvisst heima. Að óbreyttu er stefnan að ljúka svokölluðu miðprófi í harmonikuleik í vor.
Harmonikan sem Hjörleifur greip í í VMA hafði hann að láni en hann segist eiga sjálfur enn voldugra hljóðfæri heima. Hann segist spila tónlist af ýmsum toga, allt frá dægurlögum upp í flóknari stykki eftir meistara Bach og Mozart.
Auk tónlistarinnar segist Hjörleifur hafa mikla ánægju af hestum og hestamennsku enda alinn upp við slíkt frá blautu barnsbeini.