Myndlistarsýning í minningu Billu
Á morgun, föstudaginn 10. nóvember, verður opnuð myndlistarsýning í Deiglunni og Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri til heiðurs Billu – Bryndísi Arnardóttur sem var ein þeirra sem lagði grunninn að listnámsbraut VMA og kenndi þar nær samfellt frá 1998 til 2013. Að þeim tíma loknum kenndi Billa um árabil í SÍMEY – Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar námskeiðið Fræðsla í formi og lit á móti Guðmundi Ármanni Sigurjónssyni myndlistarmanni sem einnig kenndi um árabil með Billu í VMA. Billa lést 1. ágúst 2022 62 ára að aldri.
Það eru nemendur Billu á námskeiðunum í SÍMEY sem standa fyrir sýningunni og sýna verk sín. Á milli 30 og 40 sýna verk sín á sýningunni. Hugmyndina að sýningunni átti myndlistarhópurinn „Gellur sem mála í bílskúr“ sem í er myndlistarfólk sem sótti sína þekkingu í myndlist til Billu og Guðmundar Ármanns á námskeiðunum „Fræðsla í formi og lit“ í SÍMEY. Hópurinn fékk styrk í þetta verkefni frá Norðurorku og KEA. Leitað var til annarra námshópa úr SÍMEY og í kjölfarið fór boltinn að rúlla. Og nú er komið að sýningunni. Listrænn stjórnandi hennar er Guðmundur Ármann.
Þá hafa aðstandendur Billu stofnað Minningarsjóð Bryndísar Arnardóttur og rennur helmingur söluandvirðis myndanna á sýningunni í hann. Fjármunum sjóðsins skal varið til að styrkja konur á sviði sjónlista. Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir fyrir skólaárið 2023-2024. Nánari upplýsingar á vefsíðunni minningarsjodurba.is
Sýningin í Deiglunni og Mjólkurbúðinni verður opnuð á morgun, föstudaginn 10. nóvember, kl. 16 með ávarpi og léttum veitingum. Allir eru hjartanlega velkomnir. Sýningin verður einnig opin á laugardag og sunnudag kl. 14 til 17 báða dagana.
Billa lærði við Koninkliijke Akademi voor Beelende Kunsten í Mechelen í Belgíu 1978-1979 og lauk eftir það B.Fa. frá málaradeild Myndlistaskólans á Akureyri árið 1986. Einn kennara Billu í Myndlistaskólanum var einmitt Guðmundur Ármann. Síðan lauk Billa B.Ed. prófi í uppeldis- og kennslufræði við Kennaraháskólann árið 1992, diplómanámi í kennslufræði frá HA árið 2007 og M.Ed. árið 2009 frá sama skóla.
Billa hélt fjölda einkasýninga og tók þátt í samsýningum.
Sem fyrr segir kenndi Billa nær samfellt frá árinu 1998 til 2013 myndlist og listasögu við listnámsbraut VMA. Hún var ein þeirra sem lagði grunninn. Forveri listnámsbrautarinnar var handíðabraut sem var til húsa í gamla Húsmæðraskólanum. Námið fluttist síðan upp í VMA í nýtt húsnæði á efri hæðinni, þar sem það er enn þann dag í dag, listnámsbrautinni var ýtt úr vör og Billa, Guðmundur Ármann og fleiri góðir kennarar mótuðu þessa nýju stúdentsprófsbraut sem jafnan hefur verið ein af mest sóttu námsbrautum VMA.
Billa stofnaði eigið fyrirtæki, Listfræðsluna, og kenndi myndlist á námskeiðum í SÍMEY, sem fyrr segir. Þá kenndi hún í mörg ár við University of Central Florida í Bandaríkjunum.