Myndlistin er róandi
Filippía Svava Gautadóttir lauk námi af listnámsbraut VMA um síðustu jól. Hún segist hafa kunnað náminu vel og fundið sig í því. Þessa dagana má sjá akrílverk eftir Filippíu á vegg gegnt austurinngangi skólans. Verkið, sem hún kallar Von, vann hún á haustönn.
Filippía Svava hefur búið á Akureyri undanfarin ár en fram til tólf ára aldurs bjó hún á Dalvík. Var síðan um tíma í Borgarnesi áður en leiðin lá til Akureyrar. Til að byrja með fór hún í í MA en segist hafa fundið út eftir eina önn að hún væri ekki á réttri hillu í hreinu bóknámi. Ákvað þá að innrita sig á listnámsbraut í VMA og segir að það hafi hentað sér mun betur. Hún rifjar upp að hún hafi lengi haft ánægju af því að teikna og mála, m.a. hafi hún farið ung að árum á nokkurra vikna myndlistarnámskeið í Myndlistaskólanum á Akureyri. Í framhaldinu hafi áhuginn kviknað fyrir alvöru og því hafi í raun verið rökrétt að hún færi á listnámsbraut í framhaldsskóla.
Akrílverk Filippíu Svövu, sem núna er til sýnis í skólanum, segir hún að sé unnið út frá félagskvíða, sem hún hefur lengi glímt við. „Ég vildi geta túlkað það í verkinu hvernig mér líður stundum, mér finnst stundum ég vera eins og liggjandi nakinn á kletti út í náttúrunni,“ segir Filippía. Í verkinu er töluverður drungi en einnig glittir í heiðan himinn, sem er til marks um að það er alltaf birta í fjarska. Vonin er til staðar, eins og nafn verksins, Von, gefur til kynna. „Myndlistin er róandi og hún hefur hjálpað mér í þessu. Einnig hefur jákvætt og heimilislegt andrúmsloft á listnámsbrautinni haft mikið að segja,“
Filippía hefur sett stefnuna á förðunarnám næsta haust í Reykjavík og í framhaldinu hefur hún mikinn áhuga á því að starfa við leikhúsförðun. „Ég hef lengi haft áhuga á leiklist en ekki beint að leika. Það sem kemst næst því er að vinna baksviðs í leikhúsinu og þá horfi ég til þess að farða. Á vissan hátt má segja að þetta sé óbeint framhald af listnáminu.“
En áður en kemur að förðunarnáminu næsta haust ætlar Filippía Svava að ferðast. Þann 11. apríl nk. fer hún og vinkona hennar alla leið til Balí, þar sem þær dvelja í mánuð. Á leiðinni verður stoppað í Amsterdam, Þýskalandi og Kína. Heim verður komið í lok maí.