Myndlistaráhuginn hefur aukist
„Þegar ég hóf hér nám í annað skipti árið 2019, þá 25 ára gamall, viðurkenni ég að mér fannst svolítið skrítið að vera mörgum árum eldri en flestir hinir nemendurnir – og sannast sagna óttaðist ég að ég byggi ekki lengur yfir þeim eiginleika að setjast á skólabekk og læra. En ég velti ekki lengur vöngum yfir þessu og held að aldurinn og aukinn þroski hafi bara unnið með mér í náminu,“ segir Stefán Páll Þórðarson, nemandi á listnáms- og hönnunarbraut VMA.
Stefán Páll er uppalinn á Grenivík en flutti til Akureyrar að loknum grunnskóla. Leiðin lá í grunndeild málmiðnaðar í VMA því bílaáhugamaðurinn Stefán ætlaði að verða bifvélavirki. Þar hitti hann ekki naglann í höfuðið, hætti fljótt í náminu og fór út á vinnumarkaðinn á Akureyri og síðar á höfuðborgarsvæðinu. Kom aftur norður og fór á listnáms- og hönnunarbraut í VMA fyrir tveimur árum. „Ástæða fyrir því vali var ekki síst áhugi minn á því að læra tölvuleikjahönnun. Ég hef spilað tölvuleiki frá barnæsku og hef haft æ meiri áhuga á því að skyggnast á bak við þá, hvernig hið sjónræna útlit þeirra verður til. Ég valdi því að fara í listnám til þess að vera eins vel undirbúinn fyrir nám í tölvuleikjahönnun og kostur er. Ég hef meðal annars verið að skoða áhugaverða skóla í Danmörku - í Kaupmannahöfn og Viborg - og eins og staðan er núna hef ég áhuga á að fara í tölvuleikjahönnunina að loknu náminu hér í VMA,“ segir Stefán Páll.
Frá unga aldri hefur Stefán verið í tónlistinni, hann spilar á ýmis hljóðfæri og hefur samið tónlist. Hann segir að eftir því sem hann hafi lært meira í myndlistinni hafi hún fengið aukið vægi. „Myndlistaráhuginn hefur aukist og gríðarlega öflugir kennarar á listnámsbrautinni hafa ýtt undir áhugann. Þeir hafa góð tengsl inn í listaheiminn og miðla af þekkingu sinni til okkar en jafnframt höfum við mikið frelsi og traust til þess að fara okkar leiðir. Það er mikils virði,“ segir Stefán.
Síðustu daga hefur hangið uppi verk eftir Stefán í VMA – á vegg gegnt austurinngangi skólans. Þetta er akrílverk sem Stefán málaði í málunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn 2021.
Til hliðar við skólann stendur Stefán með sjö öðrum að rekstri Stúdíó Stíls við Skipagötu á Akureyri. Þetta er athvarf til sköpunar og segir Stefán að allir hafi þeir sem koma að stúdíóinu fengið grunn sinn í myndlistinni á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Þessa dagana segir hann að unnið sé að verkum fyrir sýningu sem opnuð verði í Kaktusi í Listagilinu undir lok mars.