Myndskreytti Drenginn með ljáinn
Sigurjón Líndal Benediktsson, átján ára nemandi á þriðja ári á listnáms- og hönnunarbraut VMA, myndskreytti vinsæla unglingabók í jólabókaflóðinu, Drengurinn með ljáinn, sem metsöluhöfundurinn Ævar Þór Benediktsson skrifaði. Ævar Þór leitaði ekki langt yfir skammt þegar hann fékk Sigurjón til þess að myndskreyta nýju bókina sína því þeir eru bræður.
„Þannig var að ég gaf Ævari kolamynd sem ég gerði hér í skólanum í hittiðfyrra. Hann hafði síðan samband við mig sl. vor og spurði hvort ég væri til í að myndskreyta nýju bókina hans með sömu áferð. Mér fannst það strax áhugavert og sló til. Síðastliðið sumar vann ég á kaffihúsinu Kaffi kyrrð Í Borgarnesi og þær stundir sem gáfust eftir vinnu nýtti ég til þess að teikna myndir í bókina. Það má segja að við bræðurnir höfum unnið þetta á sama tíma, hann skrifaði og sendi mér kafla og ég myndskreytti þá og síðan koll af kolli. Við lukum þessari vinnu ekki fyrr en um það leyti sem ég byrjaði í skólanum núna í haust. Auk mynda í bókinni er notað allskonar krass sem ég skissaði. Hugmyndin að baki þessu er sú að aðalpersónunni í bókinni finnst mjög gaman að krassa og skissa í skólabækurnar sínar og við vildum kalla það fram að sögupersónan hafi teiknað myndirnar í bókina. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og mikil reynsla fyrir mig. Upphaflega var hugmyndin að notaðar yrðu sextíu myndir og skissur í bókina en líklega voru þær þegar upp var staðið um níutíu. Ég held að ég hafi í það heila teiknað og skissað í fimm eða sex stórar skissubækur og síðan lögðumst við Ævar yfir þetta og hann valdi myndirnar í bókina,“ segir Sigurjón.
Sigurjón er yngstur fjögurra systkina, Ævar Þór er þeirra elstur, tuttugu árum eldri en Sigurjón. Foreldrar þeirra, Benedikt Guðni Líndal og Sigríður Ævarsdóttir, búa á bænum Gufuá í Borgarfirði. Hér er viðtal við þau hjónin sem birtist í Bændablaðinu á síðasta ári.
Drengurinn með ljáinn er þrítugasta bók Ævars Þórs, sem segir allt sem segja þarf um hversu afkstamikill höfundur hann hefur verið. Og ekki þarf að hafa mörg orð um vinsældir bóka hans, þær hafa runnið út eins og heitar lummur. Sigurjón segist hafa lesið flestar bækur bróður síns og þegar hann var yngri hafi Ævar sent honum handrit nokkurra bóka til þess að fá álit hans.
Það kom einhvern veginn ekkert annað til greina hjá Sigurjóni en að fara í listnám að loknum grunnskóla á Varmalandi í Borgarfirði. Í listsköpun lá áhugi hans. Honum fannst stórt skref að taka að fara úr fámennum grunnskóla í Borgarfirði og í höfuðborgina. Það var því niðurstaðan að fara á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Ekki sakaði að þrjú eldri systkini hans höfðu öll verið í MA og þekktu því vel til Akureyrar. Nám í VMA hóf hann haustið 2020 og er því nú á þriðja ári í skólanum – og hefur búið á Heimavist MA og VMA þennan tíma.
„Mér hefur líkað mjög vel hér í VMA og ég er feginn að hafa ákveðið að koma hingað. Ég er á myndlistarsviði og lýk þeim hluta í vor en velti fyrir mér að bæta við mig einu ári á textílsviðinu og ljúka þá stúdentsprófinu vorið 2024. Eftir það verður tíminn að leiða í ljós hvert leiðin liggur en það gæti alveg komið til greina að fara til útlanda og læra eitthvað í listsköpun,“ segir Sigurjón.
Myndlistaráhugann á Sigurjón ekki langt að sækja því Sigríður móðir hans grípur oft í penslana og málar m.a. vatnslitamyndir. Benedikt faðir hans starfar sem reiðkennari og tamningamaður og áhugamál sín sameinuðu hjónin með útgáfu bókarinnar Tölum um hesta á síðasta ári. Texta bókarinnar skrifuðu þau bæði en Sigríður málaði vatnslitamyndir í hana.