Nákvæmni, yfirvegun og elja eru lykilhugtök
Ný önn skríður af stað með nýjum viðfangsefnum og áskorunum. Ógn kórónuveirunnar er auðvitað til staðar en það er ekki nýtt, nemendur og kennarar eru öllu vanir í að gera það sem hægt er til þess að forðast smit; grímur eru staðalbúnaður allan daginn, sprittbrúsinn á sínum stað og regluleg sótthreinsun tækja og tóla.
Á fyrstu önninni í grunndeild málmiðnaðar er lögð mikil áhersla á kynningu á öllum tækjum og tólum, öryggismál og fleira. Í verklegri kennslu fá nemendur smörþefinn af einfaldri málmsmíði og ofan á þann grunn er byggt núna á annarri önn. Einn smíðaáfangi var á haustönninni og smíðaáfangi tvö er núna á vorönn. Nú er næsta skref tekið og bætt við grunnþekkinguna frá haustönn.
Stundum er sagt; Enginn verður óbarinn biskup eða Æfingin skapar meistarann. Bæði þessi máltæki eiga vel við hér, það þarf margháttaða og ítarlega æfingu til þess að ná tökum á málmsmíði. Hér eru það millimetrarnir og brot úr millimetrunum sem skipta öllu máli. Nákvæmni, yfirvegun og elja eru lykilhugtökin.
Þegar litið var inn í kennslustund í grunndeild málmiðnaðar var Hörður Óskarson brautarstjóri að leiða nemendur í einum af fjórum grunndeildarhópum í allan sannleika um leyndardóma rennibekksins. Þetta er smíðaáfangi tvö og þar er áherslan m.a. á að nemendur þjálfist í að smíða eftir teikningum. Hluti af markmiðum í áfanganum er að nemendur tileinki sér notkun rennibekkja, fræsivéla, borvéla og niðurefnunarvéla. Og sem fyrr segir þarf nákvæmnin að vera í fyrirrúmi, að ekki sé talað um öryggisþáttinn.
Smíðaverkefni nemenda á önninni er lítill vörubíll, samkvæmt fyrirliggjandi teikningum. Virkar kannski einfalt en er það alls ekki. Við smíðina þurfa nemendur heldur betur að hafa einbeitingu og nákvæmni að leiðarljósi.