Nám í kjötiðn er góður kostur!
„Ég mæli tvímælalaust með því að nemendur skoði þann möguleika að fara í kjötiðnaðarnám. Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt starf og atvinnumöguleikarnir að loknu námi eru góðir, það vantar fólk með þess menntun,“ segir Jónas Þórólfsson, starfsmaður Norðlenska og nemandi í kjötiðn við Verkmenntaskólann.
Kjötiðn er kennd um helgar á vorönn í lotunámi á matvælabraut VMA og þar er lögð áhersla á ýmsar faggreinar. Þeir sem taka þetta nám, sem Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæðastjóri hjá Kjarnafæði hefur umsjón með, þurfa að vera komnir á samning í faginu.
Jónas lauk stúdentsprófi frá VMA vorið 2012. Hann hóf að vinna við kjötiðn hjá Benny Jensen á Akureyri sautján ára gamall en nú starfar hann hjá Norðlenska og er búinn með hálft annað ár á samningi hjá fyrirtækinu sem kjötiðnaðarmaður.
Rebekka Rún Helgadóttir er sömuleiðis á samningi hjá Norðlenska í kjötiðn. Hún var í námi í VMA en hætti árið 2010, þá hálfnuð með bóklegt nám til stúdentsprófs. Sama ár fékk hún þá hugmynd að skella sér í kjötiðn, sótti um starf hjá Norðlenska og fékk þar vinnu. „Það er mjög gaman að starfa í þessu og ég get vel mælt með þessari starfsgrein fyrir bæði kynin,“ segir Rebekka Rún og bætir við að bóklegi hlutinn sem hún hafði tekið í VMA nýtist sér að fullu í námi sínu í kjötiðn, sem hún fer í eftir áramótin, eins og Jónas Þórólfsson. Það sem hún eigi fyrst og fremst eftir séu faggreinarnar.