Námið er mér sem vítamínsprauta
„Ég skal viðurkenna að þetta var töluvert erfitt til að byrja með, það var erfitt að setjast á skólabekk á ný eftir allan þennan tíma. Auðvitað þarf ég að hafa fyrir náminu en þetta gengur bara mjög vel,“ segir Páll Heimir Pálsson, sextíu og eins árs gamall Akureyringur, sem hóf vélstjórnarnám í VMA haustið 2014 eftir um fjögurra áratuga hlé í námi.
Veturinn 1970-1971 var Páll í Vélskólanum í Reykjavík en hætti eftir fyrsta árið. Hann hefði þurft að vera þrjú ár í Vélskólanum til þess að ljúka þremur stigum í vélstjórn en af því varð sem sagt ekki á þeim tíma. Páll skipti um gír og lærði setningu og offsetljósmyndun hjá Prentverki Odds Björnssonar – POB – á Akureyri. Var þar á fjögurra ára samningi og tók jafnframt bóklegt nám í Iðnskólanum á Akureyri. Var einnig í einn vetur í prentdeild Iðnskólans í Reykjavík. Meistararéttindum lauk hann í báðum fögum og starfaði í prentiðn síðan allar götur til ársins 2014, mestmegnis á Akureyri en einnig til skamms tíma í Reykjavík.
Páll fékk uppsagnarbréf hjá Ásprenti á Akureyri um mitt ár 2014. Þá voru góð ráð dýr. Hann segir að löngu áður hafi hann hugsað um hvort hann ætti ekki að ljúka því sem hann byrjaði á í Vélskólanum í Reykjavík forðum og ná sér í ákveðin vélstjórnarréttindi. Uppsögnin varð til þess að hann hugsaði sem svo að nú væri hann á tímamótum og því væri rétt að huga að þessu í fullri alvöru. Hann hafði samband við Vélskólann og fékk yfirlit frá honum um þau fög sem hann hafði þá tekið og með það í farteskinu fór hann í VMA og í ljós kom að hann gæti byggt ofan á námið syðra. Það varð því úr að Páll innritaði sig í vélstjórnarnám haustið 2014 og að tveimur önnum loknum, sl. vor, lauk hann svokölluðum A-réttindum. Í framhaldinu starfaði hann sem vélstjóri á hvalaskoðunarbátnum Ambassador á Akureyri sl. sumar og þar verður hann aftur næsta sumar. Síðastliðið haust hélt hann áfram í náminu í VMA, tók þá 16 einingar og núna á vorönn er hann í 15 einingum. Að þessari önn lokinni segist hann eiga eftir að taka fjögur fög til þess að ljúka næsta stigi í vélstjórn eða B-réttindum.
„Það er ekker launungarmál að haustið 2014 kom ég hingað inn með nokkrum kvíða en um leið var ég spenntur. En þegar ég var sestur inn í kennslustofuna fann ég ekki fyrir þessu lengur og það tók mig ótrúlega skamman tíma að setja mig inn í þetta. Reyndar þekkti ég aðeins til skólans því konan mín, Borghildur Blöndal, hefur kennt hér frá upphafi og því hafði ég oft komið hingað og þekkti vel til húsakynna og margra starfsmanna. Mér hefur fundist alveg sérlega skemmtilegt að vera inn um allt þetta unga fólk og oft hefur það komið fyrir að ég hef verið kallaður afi, sem er bara skemmtilegt. Ég er mjög ánægður með að hafa tekið þetta skref og fyrir mig var það mikil ögrun og upplifun að fara í eitthvað annað eftir að hafa unnið allan þennan tíma í prentgeiranum. Fyrir mig var þetta sem vítamínsprauta,“ segir Páll Heimir Pálsson.