Náttúran á hreyfingu
„Ég hef mikinn áhuga á því að halda áfram listnámi, spurningin er bara hvað. Ég gæti alveg hugsað mér einhverskonar „Illustration“-nám, sem er reyndar ekki kennt hér á Íslandi,“ segir Elín María Heiðarsdóttir sem lauk námi af listnámsbraut VMA um síðustu jól.
Þessa dagana hangir uppi akrílmynd eftir Elínu Maríu á vegg mót austurinngangi skólans. Myndin er unnin upp úr ljósmyndum sem hún tók á hreyfingu í Lystigarðinum á Akureyri. Áferðin er því eins og um sé að ræða hreyfða mynd. Þessari áferð segist Elín María hafa náð fram með því að draga litina í myndinni út með spaða en ekki pensli.
Elín María segist hafa verið mjög ánægð með námið. „Þetta var skemmtilegt og skapandi nám og kennararnir ögruðu manni til þess að halda áfram. Þeir gáfu okkur lausan tauminn en héldu okkur á sama tíma við efnið.“
Elín María, sem er 29 ára gömul, hefur búið á Akureyri undanfarin ár en ólst upp á Draflastöðum í Fnjóskadal. Eftir grunnskóla hóf hún nám á félagsfræðabraut en hætti eftir einn vetur. Hún fór síðan á listnámsbraut en hætti aftur eftir eitt ár og tók langt hlé frá námi en byrjaði þar aftur og útskrifaðist um síðustu jól, sem fyrr segir.
Það sem ekki síst hefur gert það að verkum að námið hefur tekið lengri tíma hjá Elínu Maríu en gengur og gerist er sú staðreynd að hún greindist með vefjagigt fyrir um áratug sem hefur sett verulegt strik í reikninginn í hinu daglega lífi. Til dæmis eru bæði langar setur og langar stöður henni erfiðar. „Þetta háir mér á hverjum degi vegna verkja og slens. Það er svolítið þversagnakennt en það er bæði erfitt fyrir mig að sofna á kvöldin og að vakna á morgnana. Líðanin er mismunandi eftir dögum, sumir dagar eru góðir en aðrir slæmir. Þegar kalt er úti, eins og núna, þarf ég að passa mig. Þá er ég sem minnst úti,“ segir Elín María og játar því að vefjagigtin geti líka tekið verulega á andlega.
Hún vinnur í Bakgarðinum, verslun sem tengist Jólagarðinum í Eyjafjarðarsveit og gigtin gerir það að verkum að hún á erfitt með að vinna fulla vinnu. „Það eru engar ýkjur að segja að liðagigtin stjórni mínu lífi að töluverðu leyti,“ segir Elín María Heiðarsdóttir.