Nemendur á brautabrú í náms- og starfskynningu
18.09.2018
Liður í námi nemenda á brautabrú í VMA er svokölluð náms- og starfskynning sem felur í sér kynningu á verknámsbrautum skólans, FAB-Lab, listnámi, heilbrigðisvísindum og forritun. Þær verknámsdeildir sem um ræðir eru byggingadeild, rafiðnaðarbraut, málmiðnaðarbraut og matvælabraut. Nemendum á brautabrú er skipt í minni hópa og hver hópur fær nokkra tíma á hverri verkstöð.
Þessi háttur hefur verið hafður á í námi nemenda á brautabrú undanfarin ár og hefur gefið afar góða raun. Með því að veita nemendum innsýn í ólíka hluti á ólíkum námsbrautum skólans hafa margir nemendur sem áður voru óráðnir í því hvaða nám þeir vildu velja í framhaldinu fundið sína hillu í námi, ef svo má segja. Árangurinn af náms- og starfskynningunni hefur því verið ótvíræður.
Í gær var litið inn í tíma hjá tveimur hópum í náms- og starfskynningu. Annars vegar í FAB-Lab þar sem Íris Ragnarsdóttir leiðbeindi nemendum um hvaða möguleika þessi stafræna tækni byði upp á. Hér má sjá tvo nemendur reyna fyrir sér í skák en þetta taflborð útbjó einmitt annar nemendanna við taflborðið í leiser skurðarvélinni. Hins vegar eru hér nokkrar myndir af nemendum í tíma hjá Gunnari Frímannssyni í rafiðnaðardeild.