Nemendur á listnáms- og hönnunarbraut VMA sýna á Amtsbóksafninu
Nokkrir nemendur listnáms- og hönnunarbrautar VMA sýna fjölbreytt verk sín á Amtsbóksafninu á Akureyri frá og með deginum í dag, 4. desember, og út þennan mánuð. Til sýnis eru málverk, teikningar, grafík, vefnaður, skúlptúrar og fleira.
„Amtsbókasafnið vill vera vettvangur fyrir listafólk og sérstaklega ungt listafólk til að koma sér á framfæri og mögulega geta selt verkin sín. Þetta var verkefni sem hafði dottið upp fyrir en þegar ég hóf störf hér í ágúst s.l. vildi ég endurvekja slíkar sýningar og heyrði í krökkunum á listnáms- og hönnunarbrautinni í VMA sem voru strax til í að taka þátt,“ segir Dagný Davíðsdóttir, verkefnastjóri viðburða og kynningarmála á Amtsbókasafninu, en hún þekkir vel til á listnáms- og hönnunarbraut VMA, þaðan lauk hún námi árið 2011.