Nemendur fóru á kostum í fantasíugreiðslu
Ellefu nemendur á hársnyrtibraut í VMA glímdu í gær við svokallaða „fantasíugreiðslu“, sem er hluti af áfanganum HGR - hárgreiðslu 403. Þeir gáfu hugmyndafluginu lausan tauminn og útkoman var sannarlega fjölbreytt og skemmtileg.
Nemendurnir útveguðu sér „módel“ til þess að greiða. Þeir hófu undirbúning og greiðslu í Gryfjunni kl. 8 í gærmorgun og upp úr hádegi voru módelin tilbúin til myndatöku.
„Nemendurnir hafa frá upphafi annar vitað um að þennan dag skyldi vera þessi fantasíugreiðsla og auðvitað hafa þeir verið að hugsa um þetta í nokkuð langan tíma og maður skynjaði að þeir voru svolítið stressaðir út af þessu. En þegar á hólminn kom gengu þeir mjög ákveðið til verks og það var ekki hægt að merkja að þeir væru neitt taugaóstyrkir yfir þessu. Útkoman var stórskemmtileg og það var virkilega gaman að sjá hversu fjölbreytt módelin voru; Lísa í Undralandi, bál, ljón og allt þar á milli. Það skorti greinilega ekki hugmyndir og það var einmitt það sem við vildum sjá. Nemendur sýndu fína takta og sumir sýndu á sér nýja hliðar, sem er alltaf gaman. Þetta var rosalega skemmtilegur dagur og nemendum fannst það líka. Þetta var í annað skipti sem þetta er gert hér og við ákváðum að færa okkur í Gryfjuna að þessu sinni og fyrir vikið fylgdist fullt af fólki með. Þetta var virkilega skemmtilegt og vel heppnað,“ segir Harpa Birgisdóttir, brautarstjóri hársnyrtibrautar.
Þessi fantasíuhárgreiðsla gldir 15% af einkunn í þessum áfanga. Einnkunnagjöfina vinna Harpa, Arna Valsdóttir, brautarstjóri listnámsbrautar, og Hilmar Friðjónsson, kennari við VMA, sem tók fullt af frábærum myndum. Eftirfarandi hlekkur er á þessar myndir Hilmars og segja þær meira en mörg orð.
https://plus.google.com/photos/115806405064920744423/albums/5865356222007283169?banner=pwa
Mikill meirihluti þeirra sem leggja þessa iðngrein fyrir sig er konur og kynjasamsetning nemenda á hársnyrtibrautinni endurspglar þá staðreynd. Aðeins einn karlmaður stundar nú þar nám, Alexander Kristjánsson frá Seyðisfirði. Harpa Birgisdóttir vill endilega sjá fleiri pilta velja þetta nám og Alexander, sem var einn ellefu nemendanna sem greiddi fantasíugreiðslu í gær, tekur heilshugar undir það.
„Já, svo sannarlega. Ég vil endilega hvetja stráka til þess að fara í þetta nám. Þetta er virkilega áhugavert. Á sínum tíma var það satt best að segja að skyndiákvörðun að fara í hárgreiðslu. Ég hef alltaf siglt aðeins á móti straumnum! Eftir að ég fór að kynna mér námið jókst áhuginn, enda er þetta mjög skemmtilegt og áhugavert nám og starf,“ segir Alexander.
„Mitt módel í fantasíugreiðslunni var „Drottning næturinnar“. Ég var búinn að hugsa um þetta dálítinn tíma, en síðustu þrjá dagana fór ég á fullt með að undirbúa þetta. Meistarinn minn er Ívar á Rakara- og hárgreiðslustofunni í Kaupangi og ég fór á fund hans og leitaði hans álits. Síðan lét ég bara vaða,“ segir Alexander, en hann vann hjá Ívari sl. sumar og mun einnig gera það á komandi sumri. „Þetta er áhugavert og lifandi starf. Maður hittir marga og það á vel við mig að vera í samskiptum við fólk og spjalla við það,“ segir Alexander.