Fara í efni

Nemendur hvattir til að nýta sér þjónustu skólahjúkrunarfræðings

Ingibjörg Ösp Ingólfsdóttir.
Ingibjörg Ösp Ingólfsdóttir.

Ingibjörg Ösp Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur hóf við upphaf þessa skólaárs störf sem skólahjúkrunarfræðingur VMA.

Ingibjörg er fædd og uppalin á Dalvík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2001 og fór síðan í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Ingibjörg segist ekki hafa horft til hjúkrunar strax í æsku en smám saman hafi hún fundið að áhuginn beindist að því að hjálpa eða leggja öðrum lið. Þá hafi valið á hjúkrunarfræðinni ekki verið erfitt. Að námi loknu fór Ingibjörg að vinna á barnadeild Sjúkrhússins á Akureyri og hefur starfað þar með hléum síðan. Nýlega hóf hún síðan störf á heilsugæslu HSN á Akureyri sem felur í sér annars vegar skólahjúkrun í VMA og hins vegar í Brekkuskóla á Akureyri.

Mér finnst þetta mjög fjölbreytt og skemmtileg vinna. Dagarnir eru misjafnir, suma daga er rólegt og aðra daga er mikið að gera. Nemendur geta bókað viðtal hjá mér í gegnum heimasíðu VMA og einnig er velkomið að líta við hjá mér í C-álmu þá tvo daga sem ég hef hér viðveru, sem er á þriðjudögum kl. 10-12 og 13-15 og á miðvikudögum kl. 12-15. Og einnig er nemendum velkomið að senda á mig tölvupóst. Mér finnst mikilvægt að nemendur nýti sér þessa þjónustu. Ef ég get ekki leyst úr þeirra málum á staðnum get ég vísað þeim áfram veginn, t.d. til sálfræðings og annarra sérfræðinga í heilbrigðiskerfinu.

Það hefur verið nóg að gera að undanförnu hjá Ingibjörgu Ösp því auk þess að sinna sínum daglegum störfum varði hún á dögunum meistaraverkefni sitt í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Námið hefur hún stundað síðustu þrjú árin, að mestu leyti í fjarnámi, og lýkur því formlega með brautskráningu frá HÍ síðar í þessum mánuði.

Sem að framan greinir er Ingibjörg Ösp með skrifstofu í C-álmu skólans. Hún er með netfangið ingibjorg.osp.ingolfsdottir@vma.is

Allar frekari upplýsingar um þjónustu Ingibjargar hjúkrunarfræðings er að finna hér á heimasíðu skólans.