Nemendur í fimmta bekk Lundarskóla heimsóttu VMA
Á fjórða tug nemenda í fimmta bekk Lundarskóla, auk kennara og námsráðgjafa, heimsóttu VMA sl. föstudag í því skyni að sjá með eigin augum hvað fram færi á fjölbreyttum námsbrautum skólans. Lundarskóli óskaði eftir því að fá að koma í heimsókn með alla nemendur í fimmta bekk í VMA og var að sjálfsögðu orðið ljúflega við þeirri beiðni, enda fátt jafn ánægjulegt og að kynna skólann fyrir áhugasömum krökkum sem án efa eiga margir eftir að stunda nám í VMA í framtíðinni.
Kristín Irene Valdemarsdóttir, námsráðgjafi í Lundarskóla, segir að ekki hafi áður verið farið með fimmtu bekkinga skólans í slíka kynningarferð en ætlunin væri að fara með þá einnig á nokkra vinnustaði á Akureyri sem tengjast þeim námsbrautum er VMA hafi í boði. Þannig geti nemendur áttað sig betur á því hvernig nám og atvinnulíf tengist sterkum böndum.